Íslensk kona sem nam börnin sín þrjú á brott frá suðurhluta Noregs, þar sem barnsfaðir hennar býr, var dæmd í fangelsi árið 2020 fyrir að meina föðurnum að hitta börnin.
Nettavisen greinir frá þessu. Faðirinn, sem fer með forræði barnanna, segist í samtali við norsku fréttasíðuna vonast til að norska og íslenska lögreglan starfi saman svo að hann geti fengið börnin aftur til sín.
„Það má ekki teljast vera í lagi að nema börn á brott,“ segir hann við Nettavisen. Samkvæmt dómsúrskurði mega börnin dvelja hjá móður sinni í 16 klukkustundir á ári undir eftirliti.
Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn alþjóðasviðs ríkislögreglustjóra, staðfestir við mbl.is að samtal sé í gangi á milli íslenskra og norskra yfirvalda vegna málsins en bendir annars á norsku lögregluna vegna frekari upplýsinga. Hún hefur ekki svarað fyrirspurn mbl.is.
Lögmaður föðurins, Sjak R. Haaheim, hefur verið í sambandi við norsku lögregluna og segir hana hafa brugðist hratt við í málinu. Hann vonast til að hún haldi áfram að þrýsta á að börnin komist aftur til Noregs.
Móðirin sagði á facebooksíðu sinni að börnin væru komin aftur til hennar eftir langa skipulagningu með aðstoð fagmanna, en Stundin greindi fyrst frá málinu. Vísir greindi frá því í gær að börnin sem um ræðir séu þrír drengir á grunnskólaaldri. Faðirinn er líka íslenskur. Tvær eldri dætur hans og móðurinnar eru búsettar hjá henni hérlendis.
Í samtali við Nettavisen segir hún brottnám barnanna hafa verið einu mögulegu leiðina. Hún telur að faðirinn hafi ekki hugsað vel um börnin og að þeirra væri sárt saknað af fjölskyldu þeirra í heimalandinu.
Haaheim segir að norskum dómstóli sé vel kunnugt um ásakanir móðurinnar um vanrækslu föðurins. Þó nokkrir dómar hafi fallið um að faðirinn eigi að hafa forræði yfir börnunum og kveðst Nettavisen hafa séð skjöl þess efnis.
Börnunum var rænt seinnipartinn á mánudaginn. Gerðist það eftir langa skipulagningu, að sögn móðurinnar. Norska lögreglan hafði skömmu síðar samband við föðurinn og lögmanninn Haaheim og reynt var að hafa uppi á móðurinni og börnunum.
Seinnipartinn í gær var ljóst að þau höfðu flogið frá Torp-flugvelli með einkaflugvél og lenti hún á Reykjavíkurflugvelli í gærkvöldi.
Konan segir Nettavisen að norskur dómstóll hafi ekki viljað hlusta á hennar hlið í málinu.
„Norskir dómstólar eru mjög góðir í því að sjá til þess að erlendum börnum sé haldið í Noregi, sama hvað. Mér finnst eins og það skipti ekki máli sem hefur gerst. Ef þau búa í Noregi skulu þau búa áfram í Noregi.“
Hún segir börnin eiga stóra fjölskyldu í heimalandinu [Íslandi] og að allir séu mjög spenntir fyrir því að hitta þau.
„Núna reikna ég með því að faðirinn reyni að ná börnunum aftur með aðstoð Haag-samningsins. Ég er tilbúin til að mæta í réttarsalinn. Það er andstætt mannréttindalögum að halda fjölskyldunni í sundur,“ segir hún.
Faðirinn segir Nettavisen að það sé dómstóllinn en ekki hann sem ákvað að móðirin skyldi hafa eins lítil samskipti við börnin og raun ber vitni, eftir að hún hafði meinað honum að hitta börnin. Hann segir það hafa verið erfitt að heyra að hún hafi fengið aðstoð fagmanna til að nema börnin á brott.
Norska lögreglan vildi ekki tjá sig um málið við Nettavisen.