Í síðustu viku voru kynntar tillögur að úthlutun árið 2022-2024 úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Tillöguna kynnti Guðlaugur Þór Þórðarson, ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála, í Hátíðarsal Háskóla Akureyrar.
Í tillögunni kom fram að umfangið yrði hvað mest við Geysi en áætlað er að heildarfjármagn sem varið verður í svæðið muni nema um 152,4 milljónum á árinu.
Á árunum 2023 og 2024 hefur verið gert ráð fyrir umtalsverðu fjármagni til nokkurra staða, þar með talið við Geysi. Viðræður ríkis og sameiganda ríkisins að landssvæði innan girðingar við Geysi um hugsanleg kaup ríkisins á eignarhlut annarra innan girðingar við Geysi stóðu yfir um nokkurt skeið. Árið 2016 eignaðist ríkið landið og hefur síðan þá verið unnið að fullnaðarmótun tillögu um svæðið, en talið er að núverandi innviðir séu engan veginn fullnægjandi til verndar svæðinu.
„Þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru byggjast á því að endurnýja nánast flesta innviði sem á svæðinu eru með það að markmiði að vernda þetta friðlýsta svæði eins vel og hægt er með hliðsjón af þeim fjölda sem sækir staðinn heim,“ segir í skriflegu svari frá ráðuneyti umhverfis-, orku- og loftslagsmála.
Á næstu þremur árum er gerð tillaga um að veita 2.753 milljónum í verkefni sem tengjast uppbyggingu innviða. Byggir þriggja ára áætlunin á þeirri forsendu að fjárheimildir áranna 2023 og 2024 séu áþekkar þessu ári.
Samtala þeirra verkefna sem ákveðið hefur verið að fjármagna og gera strax samninga um við viðkomandi umsjónaraðila á árinu er 843,5 milljónir, að meðtöldum framkvæmdum við Geysi þar sem ljúka á hönnun svæðis og ráðast í fyrsta áfanga hringleiðar. Um önnur verkefni segir ráðuneytið:
„Til viðbótar er gert ráð fyrir því að hægt verði að bregðast við þegar staðir koma undan vetri, ef í ljós koma einhverjar skemmdir sem þarfnast lagfæringar. Einnig er verið að greina innviðaþörf á nýfriðlýstum svæðum og eru Stórurð og Gerpissvæðið á Austurlandi dæmi um slík svæði. Þá er gert ráð fyrir fjármunum til innleiðingar aðgerða í stefnumarkandi landsáætlun.
Dæmi um það er vinna og afurðir vinnuhóps, sem á annan tug hagsmunaaðila skipa, sem hefur það verkefni að móta stefnumótandi umgjörð um ferðamannaleiðir (gönguleiðir). Loks er hluti fjármagnsins nýttur í að bæta rýni á tillögum og gögnum, sem þar með bætir ákvarðanatöku og dregur úr líkum á því að farið verði í verkefni á stöðunum sem ekki reynast nægjanlega vel ígrunduð.“
Í kynningu að tillögum að Landsáætlun kom fram að gæta þurfi jafnvægis á milli uppbyggingar og verndunar. En hvaða skref eru tekin til að tryggja að því sé fylgt eftir? Um það segir ráðuneytið:
„Framkvæmdir á friðlýstum ferðamannastöðum byggjast fyrst og fremst á friðlýsingarskilmálum og stjórnunar- og verndaráætlunum staðanna. Í þessum gögnum er almennt skilgreint ítarlega hvaða innviði umrædd svæði eru talin geta borið án þess að tjón verði á náttúru og menningarsögulegum minjum á svæðinu. Meginstef ráðuneytisins í allri uppbyggingu á slíkum stöðum er fyrst og fremst vernd náttúrunnar og að náttúran njóti ávallt forgangs umfram aðra þætti eins og t.d. fjölgun ferðamanna sem sækja landið heim.“
Hægt er að draga úr innviðaþörf með óefnislegum innviðum. Í því samhengi má nefna fræðslu landvörslu og staðbundnum umgengnisreglum, en mikið átak hefur verið gert í landvörslu og er talið að það hafi án efa dregið úr þörf á varanlegum mannvirkjum á sumum stöðum.
„Mikilvægt er enn fremur að draga lærdóm af reynslu síðustu ára og er það mikilvægur þáttur í endurskoðun núverandi stefnu,“ segir í ráðuneytið að lokum.