Fréttir dagsins komu fyrirtækinu á óvart

Joe & the Juice er með samning til áramóta.
Joe & the Juice er með samning til áramóta. mbl.is/Eggert

Rekstraraðilar Joe & the Juice voru ekki meðvitaðir um að ISAVIA hygðist ekki halda áfram með sambærilegan rekstur í flugstöðinni. Joe mun starfa að óbreyttu fram til áramóta og mun fyrirtækið leita annarra leiða til að halda starfsemi sinni áfram á Keflavíkurflugvelli. Þetta kemur fram í yfirlýsingu Joe Ísland ehf..

Greint var frá því í Morgunblaðinu í dag að stöðunum Loksins og Joe & the Juice yrði lokað í Leifsstöð. Op­inn kynn­ing­ar­fund­ur vegna útboðs Isa­via á rekstri tveggja veit­ingastaða í Leifs­stöð er í Hörpu í dag. Í kynn­ing­ar­gögn­um frá Isa­via kem­ur fram að breyt­ing­ar séu fyr­ir hönd­um á veit­inga­rým­um í brott­far­ar­saln­um.

Með samning til áramóta

Joe & the Juice hefur haldið úti veitingarekstri á Keflavíkurflugvelli frá því í janúar 2015 en fyrirtækið er í dag með samning um rekstur til áramóta. Rekstraraðilar voru meðvitaðir um að útboð væri framundan en ekki að breytingar væru í vændum.

„Joe & the Juice hefur um árabil verið lang vinsælasti veitingastaðurinn á vellinum. Sé horft til skoðanakannana sem ISAVIA hefur framkvæmt er ljóst að vöruframboð og þjónusta Joe & the Juice passar nær fullkomlega við óskir ferðalanga, bæði innlendra og erlendra. Ákvörðun um að sækjast eftir annarskonar veitingum kom okkur því verulega á óvart.“ er haft eftir Öglu Jónsdóttur, fjármálastjóri Joe Ísland ehf. í yfirlýsingunni.

Einkennileg nálgun

Þar kemur einnig fram að félaginu þyki það einkennileg nálgun að úthýsa vöru og þjónustu með þessum hætti í stað þess að bæta frekar við öðrum valmöguleikum.

„Dagurinn hefur farið í að ræða við samstarfsaðila og starfsfólk en við höfum einnig fengið fjöldann allan af skilaboðum frá viðskiptavinum sem lásu um þetta í fjölmiðlum í morgun. Joe mun starfa óbreytt fram til áramóta og bjóðum við alla velkomna til okkar.

Í kjölfarið munum við skoða alla möguleika sem bjóðast á Keflavíkurvelli enda ljóst að mikil eftirspurn er eftir okkar vörum og þjónustu þar,“ er haft eftir Öglu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert