Hagsmunum barnanna betur borgið á Íslandi

Lögmaðurinn segir að faðir barnanna eigi „auðvelt“ með að flytja …
Lögmaðurinn segir að faðir barnanna eigi „auðvelt“ með að flytja til Íslands. mbl.is/Sigurður Bogi

Hagsmunum barnanna þriggja, sem numin voru á brott af móður sinni frá suðurhluta Noregs, er betur borgið á Íslandi heldur en í Noregi.

Þetta segir lögmaður móður barnanna, sem vill ekki láta nafns síns getið, í samtali við mbl.is.

Börnin eigi ekkert bakland í Noregi

„Börnin eiga alla sína stjórfjölskyldu, líka föðurmegin, á Íslandi en ekkert bakland í Noregi. Móðurmál þeirra og foreldranna er íslenska. Hagsmunum þeirra er augljóslega betur borgið á Íslandi en í Noregi sökum þessa. Rétturinn til að þekkja fjölskyldu sína er betur tryggður á Íslandi,“ segir lögmaðurinn.

Þá segir hann ákvörðun norskra dómstóla um umgengni móður vera „skýrt brot“ gegn 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu [MSE] um réttinn til friðhelgi einkalífs og fjölskyldu, og að réttindi barnanna yrðu „augljóslega“ frekar virt á Íslandi. Þar að auki eigi faðir barnanna „auðvelt“ með að flytja til Íslands.

„Systur strákanna munu eiga heima á Íslandi og ákvörðun norskra dómstóla er til þess fallin að sundra fjölskyldunni, sem aftur er skýrt brot gegn 8. mgr. MSE, sem og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna auk annarra íslenskra laga. Fjölskyldan mun hins vegar sameinast á Íslandi.“

Hagsmunir barnanna skuli vera í fyrirrúmi

Greint var frá því á mbl.is fyrr í dag að tillaga um að börnum í Noregi, sem telja að brotið hafi verið á rétti þeirra, yrði veittur réttur til að kvarta til Sameinuðu þjóðanna, hafi verið kolfelld á norska Stórþinginu í gær.

Lögmaðurinn segir þessa niðurstöðu skjóta skökku við þær áherslur sem Mannréttindadómstóll Evrópu hefur lagt á við ákvarðanir er varða börn, þ.e. að hagsmunir barnanna skuli vera í fyrirrúmi.

Þá væri samheldni fjölskyldu og fjölskyldusameining mikilvægt sjónarmið við beitingu 8. gr. MSE. Fjölskyldubönd skuli aðeins rofin í algjörum undantekningartilvikum og gera verði allt til þess að varðveita persónuleg tengsl og þegar við á, sameina fjölskylduna,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka