Kolefnisspor Landsvirkjunar stóð í stað á milli áranna 2020 og 2021. Þetta kemur fram í tilkynningu og er þar sérstaklega vakin athygli á því að sporið hafi ekki stækkað þrátt fyrir aukna orkuvinnslu og að dregið hafi úr samdráttaráhrifum Covid-19.
„Kolefnisspor (losun að frádreginni kolefnisbindingu) á orkueiningu er áfram með því lægsta sem þekkist eða 1,2 gCO2íg/kWst,“ segir í tilkynningunni.
Hún er unnin upp úr nýútkomnu loftslagsbókhaldi Landsvirkjunar fyrir árið 2021.
„Þar kemur jafnframt fram, að kolefnissporið okkar hefur lækkað um 61% frá árinu 2008 og við erum á góðri leið að ná settu marki um kolefnishlutleysi árið 2025.“
Þrátt fyrir þetta jókst heildarlosun „lítillega“ en í tilkynningunni segir að kolefnisbinding hafi aukist á móti.
„Mesta aukningu losunar má rekja til aukinnar vinnslu frá jarðvarma, sem stafar af meiri eftirspurn eftir raforku sem og lágri vatnsstöðu uppistöðulóna,“ segir í tilkynningunni.