Tugmilljóna kostnaður við sandhreinsun

Svartur sandurinn lagðist yfir allt þorpið í miklu sandfoki í …
Svartur sandurinn lagðist yfir allt þorpið í miklu sandfoki í kröftugum suðvestanveðrum í vetur. mbl.is/Jónas Erlendsson

Hreinsun Víkur í Mýrdal eftir mikið sandfok í þrígang í vetur mun kosta Mýrdalshrepp tugi milljóna króna. Gerðar verða ráðstafanir til að sporna við öðru eins sandfoki.

„Þetta var í fyrsta skipti í langan tíma sem við fengum þessar stífu suðvestanáttir sem blésu sandinum yfir Vík,“ segir Einar Freyr Elínarson, oddviti Mýrdalshrepps. Foksandurinn kom úr fjöru vestan við Vík sem stækkaði mjög eftir að þar var byggður sandfangari 2011.

„Þarna hefur safnast heilmikið laust efni og við sjáum að það þarf að binda það. Við höfum þegar hafið samstarf við Landgræðsluna og fulltrúar hennar hafa komið tvisvar austur. Þetta verður með fyrstu verkum þeirra í vor,“ segir Einar.

Þrjú hundruð gömlum og skemmdum heyrúllum verður raðað upp gróðurlínuna ofan við fjöruna. Þær munu safna að sér sandi. Síðar verður hægt að sá í garðinn sem myndast og þá verður heilmikið forðabúr af lífrænu efni þar undir.

„Landgræðslan hafði samband við okkur eftir að það birtust fréttir af sandfokinu. Það verður sáð melgresi sunnan við gróðurlínuna, sjávarmegin, til að binda sandinn. Einnig verður skoðað að setja upp sandgirðingar,“ segir Einar. „Ef Guð og veðrið lofar þá verður hægt að byrja á þessu jafnvel þegar í apríl.“

Enn er unnið að hreinsun

„Þetta eru hundruð tonna af sandi sem þarf að fjarlægja og kostnaðurinn mun hlaupa á tugum milljóna þegar upp er staðið,“ segir Þorbjörg Gísladóttir, sveitarstjóri Mýrdalshrepps. „Við höfum verið með sóparabíl úr Reykjavík, stórvirkar vinnuvélar og flutningabíla í marga daga við að hreinsa plön og götur. Sveitarfélagið hefur hreinsað hjá sér og fyrirtæki sínar lóðir. Við flytjum sandinn austur fyrir Vík þar sem eru að myndast rof.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert