Allt á einum stað fyrir flóttamenn

Hér má sjá starfsmenn móttökumiðstöðvarinnar.
Hér má sjá starfsmenn móttökumiðstöðvarinnar. Ljósmynd/Lögreglan

Móttökumiðstöð umsækjenda um alþjóðlega vernd verður opnuð í húsi Domus Medica á mánudaginn í næstu viku. Þar verður hún opin alla virka daga milli klukkan 8 og 16.

Starfsmenn vinna nú hörðum höndum að því að setja upp nauðsynlega aðstöðu en að sögn Gylfa Þórs Þorsteinssonar, sem fer fyr­ir aðgerðat­eymi sem skipuleggur móttöku flótta­fólks frá Úkraínu, verða þarna staðsettir „allir aðilar sem að koma að málefnum flóttamanna á einhvern hátt.“

Þar á meðal verða fulltrúar frá Útlendingastofnun, fulltrúar frá lögreglunni, sem sjá meðal annars um að taka fingraför, fulltrúar frá heilsugæslunni sem munu sjá um læknisskoðun og frá fjölmenningarsetrinu sem munu aðstoða með þjónustuúrræði varðandi búsetu.

„Þetta verður allt á einum stað núna,“ segir Gylfi Þór og bætir við að áður hafi fólk þurft að fara víða um bæinn til að sækja þessa þjónustu og fylla út pappíra.

Gylfi Þór Þorsteinsson.
Gylfi Þór Þorsteinsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Framtíðarúrræði

Nú hafa 518 flóttamenn komið hingað til landsins frá Úkraínu frá því að stríðið hófst, en í heildina hafa alls 882 flóttamenn komið til Íslands á árinu.

Móttökumiðstöðin var upphaflega sett á fót vegna flóttamannastraumsins frá Úkraínu en hún er þó hugsuð fyrir flóttamenn hvaðanæva að úr heiminum. Um framtíðarúrræði er að ræða þó svo að Domus Medica sé tímabundinn húsakostur.

Hafa náð að annast eftirspurn hingað til

Allir þeir flóttamenn sem hafa komið til landsins hingað til hafa fengið skammtímahúsnæði. Undanfarið hafa um 20 til 30 flóttamenn komið hingað á hverjum degi. Framtíðin er þó óræð en að sögn Gylfa Þórs vita yfirvöld ekki hvað má búast við mörgum flóttamönnum. Þá liggur ekki ljóst fyrir hversu margir munu vilja vera hér til lengri tíma. 

„Bæði erum við að leitast eftir húsnæði fyrir skammtímavistun sem nýtist Útlendingastofnun fyrir alla þá flóttamenn sem eru að koma til landsins. Síðan erum við að vinna í því sem við köllum Skjól, það er að segja staðsetning til aðeins lengri tíma, kannski einhverra mánaða. Það gengur ágætlega.

Síðan erum við að leita að húsnæði þar sem fólk getur verið til lengri tíma og þá erum við að tala um með fasta búsetu og það gengur hægast að finna það húsnæði en við erum full bjartsýni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert