Bollastaðir, Biobú og Karólína verðlaunuð

Landbúnaðarverðlaunin 2022. Frá vinstri: Elínborg móðir Borghildar Aðils fyrir hönd …
Landbúnaðarverðlaunin 2022. Frá vinstri: Elínborg móðir Borghildar Aðils fyrir hönd Bollastaða, Karólína Elísabetardóttir bóndi í Hvammshlíð og Kristján Oddson frá Biobúi. Ljósmynd/Erla Hjördís Gunnarsdóttir

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra veitti þremur verkefnum landbúnaðarverðlaun á búnaðarþingi Bændasamtaka Íslands.

Bollastaðir í Blöndudal fengu fyrstu viðurkenningu dagsins. Borghildur Aðils og Ragnar Ingi Bjarnason eru þátttakendur í verkefninu Loftlagsvænn landbúnaður. Þau eru að innleiða nýjar aðferðir sem bæta nýtingu í rekstri og skila minna loftlagsfótspori.

Næst fékk Biobú verðlaun en þau Kristján Oddson og Dóra Ruf hafa stundað lífræna mjólkurframleiðslu á Neðra Hálsi frá árinu 1996. Fyrirtækið var stofnað árið 2002 og framleiðir nú fimmtán tegundir af lífrænum mjólkurvörum.

Karólína Elísabetardóttir var sú þriðja og síðasta sem fékk verðlaun, en hún er bóndi í Hvammshlíð í Skagabyggð. Verðlaunin fékk hún fyrir rannsóknir á lausnum við riðuveiki sem gefur góða von um að útrýma sjúkdómnum í framtíðinni.

Hefð er fyrir því að landbúnaðarráðherra veiti verðlaunin en nú falla málefni landbúnaðar undir matvælaráðuneytið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert