Fæðuöryggi snúist um sjálfstæði

Búnaðarþing 2022 á Hótel Natura.
Búnaðarþing 2022 á Hótel Natura. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra töluðu um mikilvægi fæðuöryggis í ljósi stríðsins í Úkraínu í ávarpi sínu á Búnaðarþingi í dag.

Búnaðarþing Bændasamtaka Íslands er í dag haldið í fyrsta skipti í 60 ár annars staðar en í Súlnasal í Bændahöllinni við Hagatorg, en nú er þingið haldið á Hótel Natura.

Ásamt ráðherrum og fleirum flutti Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ávarp.

Mikilvæg gildi sömu í dag og fyrir öld

Sigurður Ingi Jóhannsson minntist í ræðu sinni á mikilvægi gilda sem voru líka mikilvæg fyrir öld síðan, ræktun nytjaplanta, ræktun skóga og landgræðslu sem spilar stórt hlutverk í baráttunni við hnatthlýnun.

Sagði hann þá fæðuöryggi snúast um sjálfstæði.

„Næstu skref verða ekki stigin með fleiri fundum, heldur verða þau stigin með aðgerðum,“ sagði Sigurður Ingi um orkuskiptin framundan og að landbúnaðurinn í landinu væru mikilvægur hluti af lausninni í loftlagsumræðunni.

Sigurður Ingi Jóhannssin, Guðni Th. Jóhannesson og Svandís Svavarsdóttir á …
Sigurður Ingi Jóhannssin, Guðni Th. Jóhannesson og Svandís Svavarsdóttir á Búnaðarþingi í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Þarf að vera efnahagslegur grundvöllur

Svandís sagði ekkert ógna fæðuöryggi á Íslandi og um heim allan eins mikið og loftlagsbreytingarnar.

„Á tímum sem þessum er landbúnaðurinn miðlægur í að takast á við breyttar aðstæður og horfa til framtíðar,“ sagði Svandís og spyr hvað sé hægt að gera meira.

„Landbúnaðurinn er of mikilvægur til að vera í vörn, hann verður að vera í sókn og hefur til þess alla burði. Til þess að meira verði framleitt þarf að vera efnahagslegur grundvöllur,“ sagði ráðherrann og bætti við:

„Það verður að vera hægt að lifa af með reisn á því að framleiða mat.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert