Ísland þurfi að aðlagast nýjum veruleika

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á ársfundi Seðlabanka Íslands í dag.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á ársfundi Seðlabanka Íslands í dag. Ljósmynd/Kristinn Magnússon

Of snemmt er að fullyrða um afleiðingar stríðsins í Úkraínu en þó virðist ljóst að til skamms tíma mun Ísland einfaldlega þurfa að laga sig að nýjum veruleika, því enginn veit hver varanleg áhrifin verða. Staða Íslands er þó ágæt til þess að mæta því sem að höndum ber.

Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í ávarpi sínu á ársfundi Seðlabanka Íslands, sem haldinn var í Silfurbergi í Hörpu í dag.

Skuldastaða ríkissjóðs mun betri en á horfði

„Þótt svigrúmið í ríkisfjármálum hafi minnkað í kjölfar farsóttar er halli og skuldastaða ríkissjóðs mun betri en horfur voru á í upphafi faraldursins og stefnumörkun stjórnvalda, samhliða horfum um vöxt í efnahagslífinu, gerir ráð fyrir að endurheimta megi jafnvægi í ríkisrekstrinum á næstu árum.“

Hún segir aðlögunina á meginlandi Evrópu þó verða kostnaðarsamari til skammstíma en að e.t.v. ábatasamari sé horft til fjarlægari framtíðar, þar sem æ fleiri ríki muni skipta yfir í græna orku.

„Það leiðir okkur að mikilvægasta viðfangsefni allra jarðarbúa – loftslagsmálum og orkuskiptum. Þó að skammtímaafleiðingar stríðsins gætu orðið bakslag í baráttunni við loftslagsvána ef ekki er hægt að draga eins hratt úr brennslu kola og vonir stóðu til, verður stríð Pútíns gegn Úkraínu líklega til þess að flýta fyrir orkuskiptum. Olía, gas og kol munu þoka fyrir sólarorku, vindorku og öðrum grænum orkugjöfum.“

Frá ársfundi Seðlabanka Íslands í dag.
Frá ársfundi Seðlabanka Íslands í dag. Ljósmynd/Kristinn Magnússon

Útgáfa seðlabankarafeyris til skoðunar

Stríðið í Úkraínu setji þó fleira en loftlagsmálin í nýtt samhengi, að sögn Katrínar. Átökin séu okkur áminning um að stríðsátök nútímans geti breiðst út til netheima.

„Lengi hefur legið fyrir að innlend greiðslumiðlun er afar háð erlendum greiðsluinnviðum og skortir varaleiðir sem hægt er að grípa til ef samband við umheiminn rofnar. Auk þess ríkir fákeppni á þessum markaði og erlend greiðslumiðlun er miklu dýrari en almennt innan Evrópu.“

Ganga þurfi rösklega til verka í þessum efnum og hugsa bæði til skamms og langs tíma, að sögn Katrínar.

„Til skamms tíma kann lausnin að felast í innleiðingu nýrrar smágreiðslulausnar sem byggist á innlendum greiðsluinnviðum. Til lengri tíma litið þarf að huga að viðbrögðum Seðlabankans við mikilli sköpunargleði á sviði rafrænnar greiðslumiðlunar, sem spannar vítt róf rafrænna eigna sem uppfylla misvel hina ýmsu eiginleika peninga, allt frá sýndarfé til rafeyris. Margir seðlabankar huga nú að útgáfu seðlabankarafeyris og þau mál hefur Seðlabanki Íslands einnig til skoðunar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert