Tíu starfsmenn á skrifstofu Eflingar hafa sagt upp störfum í febrúar og mars og tímabundnir samningar þriggja starfsmanna renna út nú um mánaðamótin. RÚV greindi frá en Linda Dröfn Gunnarsdóttir, fráfarandi framkvæmdastjóri Eflingar, staðfestir þessar tölur í samtali við mbl.is.
„Svo er gatið miklu stærra en það. Það er svolítið erfitt að gefa mynd af gatinu sem hefur myndast með veikindaleyfum og einhverju svoleiðis. Það kemst betri sýn á það þegar þessu öllu er lokið. En þetta er fasta talan, tíu manns plús þrír sem endurnýja ekki tímabundna samninga. Þannig það eru þrettán manns sem eru að fara núna,“ segir Linda.
Sé litið aðeins lengra aftur í tímann, aftur til desember eða nóvember hafa þó hátt í tuttugu starfsmenn sagt upp störfum eða farið í varanlegt veikindaleyfi. Rúmlega fimmtíu manns starfa á skrifstofunni.
Trúnaðarmaður starfsfólks Eflingar greindi frá því í viðtali við mbl.is í byrjun febrúar að meirihluti starfsfólksins á skrifstofunni óttaðist endurkomu Sólveigar Önnu Jónsdóttur sem formanns félagsins. Fólk hafi upplifað kvíða og vanlíðan einhverjir talið að þeim yrði ekki stætt í sínu starfi.
Sólveig mun taka við formennsku á nýjan leik á aðalfundi þann 8. apríl næstkomandi, en hún sagði í viðtali við mbl.is eftir endurkjörið í febrúar að hún skildi að þeir sem hefðu farið fram með gífuryrðum og gert aðför að mannorði hennar óttuðust endurkomu hennar. Hún gæti ekki ímyndað sér að það fólk hefði áhuga á að starfa á sama vinnustað og hún.
Linda segir mikla þekkingu og reynslu fara úr félaginu með þeim sem sagt hafa upp á síðustu mánuðum. Fólk skilji hins vegar vel við.
„Það sem hefur einkennt þennan hóp er að það eru allir að vanda sig til verka og skilja vel við. Svo er maður líka að hlúa að þeim sem eftir sitja, að það verði ekki öllu hent á þau. Við reynum að raða verkefunum þannig að starfsemin haldist góð og þjónustan við félagsmennina. En vissulega verður þetta stórt verkefni fyrir nýja stjórn að ráða í þessar stöður og viðhalda þekkingunni.“
Linda vann sjálf sinn síðasta vinnudag sem framkvæmdastjóri Eflingar í dag, en hún var ráðin inn tímabundið. Þegar ný stjórn tekur við mun væntanlega verða ráðinn nýr framkvæmdastjóri.