Tökur standa nú yfir hér á landi á hluta stórmyndarinnar Heart of Stone sem Netflix framleiðir. Eins og kom fram í Morgunblaðinu í síðustu viku er hér um að ræða umfangsmesta kvikmyndaverkefni sem tekið hefur verið upp í Reykjavík og það næststærsta hér á landi frá upphafi. Hið stærsta var þegar Clint Eastwood tók hér upp Flags of our Fathers. Um 600 manns eru í tökuliði Heart of Stone og 3-400 aukaleikarar.
Í gær var tökuliðið við störf á Álftanesi og var Álftanesvegi lokað um tíma af þeim sökum. Fyrr í vikunni voru tökur við Kleifarvatn og í dag verður tökuliðið á Seltjarnarnesi. Um helgina fara svo tökur fram í miðborg Reykjavíkur, meðal annars við Hörpu og við Hallgrímskirkju. Tökurnar í miðborginni fara fram laugardag, sunnudag og mánudag.
Ráðgert er að umferð um Sæbraut verði takmörkuð um tíma frá Snorrabraut að Hörpu sem og frá Kalkofnsvegi að Geirsgötu. Aðgangur að plani fyrir framan Hörpu verður að hluta til takmarkaður en opið verður fyrir aðgengi gesta að Hörpu. Þess verður gætt að greið leið verði að Hörpu í gegnum vel merktar hjáleiðir og allir gestir komist leiðar sinnar og geti sótt viðburði þar. Útfærsla og hjáleiðir verða betur kynnt þegar nær dregur tökunum.
Forvitnilegt verður að sjá hvernig Ísland og umræddir tökustaðir koma fyrir í Heart of Stone. Eins og fram hefur komið á myndin að gerast að hluta til hér á landi og þar sem um hasarmynd í ætt við Mission: Impossible er að ræða gæti útkoman orðið mjög athyglisverð.
Heimildir Morgunblaðsins herma að umrædd atriði í miðbænum feli í sér bílaeltingarleik, sprengjur og læti en ekkert hefur fengist staðfest um það. Með aðalhlutverkið fer leikkonan Gal Gadot sem hefur verið á hraðri uppleið í Hollywood á síðustu árum. Auk hennar fara Jamie Dornan, Alia Bhatt og Sophie Okonedoo með stór hlutverk.