„Af okkar hálfu snýst þetta um mannréttindabrot, það er búið að brjóta á mannréttindum barnanna aftur á bak og áfram. Réttindum þeirra til eðlilegs lífs með eðlilegum fjölskyldutengslum,“ segir Edda Björk Arnardóttir sem nam þrjá syni sína á brott frá suðurhluta Noregs fyrr í vikunni. Drengirnir bjuggu þar með íslenskum föður sínum sem fer einn með forsjá þeirra.
Samkvæmt norskum dómsúrskurði fær Edda aðeins að hitta drengina undir eftirliti fjórum sinnum á ári, fjórar klukkustundir í senn og skal þá töluð norska. Tvær alsystur drengjanna eru hins vegar með lögheimili hjá Eddu á Íslandi, en foreldrarnir fara sameiginlega með forsjá þeirra. Systkinin höfðu ekki hist í þrjú ár, þegar Edda nam drengina á brott, en hún leigði einkaflugvél til að fljúga með þá til Íslands.
Edda segist ekki hafa átt annan kost í stöðunni, enda hafi velferð barnanna verið ógnað að hennar mati. Hún hafi verið orðin úrkula vonar um að dómstóll í Noregi tæki mark á þeim gögnum sem hún legði lagt fram. Því hafi hún gripið til þess að örþrifaráðs að sækja synina til Noregs.
„Það var annað hvort að láta systkini aldrei hittast aftur, fyrr en þau væru orðin 18 ára, eða gera eitthvað í þessu,“ segir Edda. Eldri drengirnir eru 11 ára og sá yngsti 8 ára. Stúlkurnar eru á unglingsaldri. Börnin eiga svo þrjú önnur systkini búsett hér á landi.
Lögmaður Eddu sagði í samtali við mbl.is í gær að ákvörðun norskra dómstóla um umgengni móður vera skýrt brot gegn 8. grein Mannréttindasáttmála Evrópu um réttinn til friðhelgi einkalífs og fjölskyldu og að réttindi barnanna yrðu augljóslega frekar virt á Íslandi.
Edda viðurkennir að það hafi tekið á taugarnar að nema drengina á brott, en hún sé ekki í neinum vafa um að það hafi verið rétt ákvörðun. Það sé drengjunum fyrir bestu að vera á Íslandi og hún vonast til þess að sannleikurinn komi í ljós.
„Þetta var örugglega einn mest taugatrekkjandi dagur sem ég hef upplifað, ég ætla ekki að neita því. En þetta gekk mjög hratt fyrir sig þegar þeir voru komnir inn í bíl. Ég var komin í loftið innan við þremur tímum frá því að sá fyrsti kom í bílinn,“ segir Edda, en drengirnir voru á leið heim úr skólanum þegar hún sótti þá. Miklir fagnaðarfundir áttu sér stað þegar systkinin hittust eftir þriggja ára aðskilnað.
Hún segir að vissulega sé um að ræða mikið inngrip í líf drengjanna og að sjálfsögðu verði að ræða það sem gerðist, en þetta sé þeirra vilji. „Þeir vilja vera hér, þeir vilja ekki fara til baka.“
Edda og dætur hennar flugu með venjulegu farþegaflugi út til Noregs en hún leigði svo einkaflugvél til að fljúga aftur heim til Íslands.
Hún segir það ekki hafa tekið langan tíma að skipuleggja brottnámið. Hins vegar hafi hún verið í sambandi við fagaðila í töluverðan tíma til að meta stöðuna, hvað hún gæti gert. „Þetta var alltaf í huga mér sem ein leiðin, en síðasta leiðin. Á endanum varð þetta samt fyrir valinu. Ég skipulagði þetta bara sjálf með manninum mínum. Við fengum fagaðila til að meta stöðuna en það var enginn annar sem skipulagði þetta,“ áréttar Edda. Enginn hafi ráðlagt þeim að fara þessa leið. Ákvörðunin hafi alfarið verið þeirra sem og fjármögnunin.
Fjölskyldan bjó saman í Noregi um árabil og eftir að foreldrarnir skildu árið 2015 fóru þau sameiginlega með forsjá barnanna, sem höfðu lögheimili hjá Eddu. Þegar hún svo vildi flytja til Íslands með börnin árið 2017 synjaði faðirinn henni um það. Málið fór því fyrir dóm í Noregi en samkvæmt heimildum mbl.is var Eddu var ráðlagt að flytja heim til Íslands á meðan málið væri til meðferðar til að undirbúa heimili fyrir börnin. Hún kom hins vegar reglulega til Noregs og eyddi miklum tíma með börnunum.
Þegar dómur var kveðinn upp hafði það hins vegar úrslitaáhrif á niðurstöðuna að Edda hafði flutt til Íslands. Dómur féll því þannig að lögheimili barnanna skyldi vera í Noregi hjá föður, þrátt fyrir að frumtengsl þeirra við móður væru mun sterkari.
Þegar börnin komu til móður sinnar í vetrarfrí árið 2019 tók hún ákvörðun um að halda þeim eftir hér á landi. Meðal annars vegna þess að tannheilsa barnanna var mjög slæm, sérstaklega drengjanna. Þá voru stúlkurnar skýrar með það að þær vildu ekki fara aftur út til föður síns, að sögn Eddu.
„Alla þeirra æsku hef ég verið manneskjan sem hef séð mest um þá, ég var alltaf með þá. Þegar við pabbi þeirra skildum árið 2015 bjuggu börnin hjá mér en hann flutti til Finnlands, þar sem hann starfaði. Ég hef alltaf verið með þessi börn, svo fæ ég 16 tíma með þeim á ári fyrir að halda þeim eftir. Ég neitaði að skila þeim eftir páskaumgengni, það var þannig. Ég hélt þeim eftir vegna þess að tannheilsa þeirra var mjög slæm og þeir þurftu að fara í aðgerðir vegna þess,“ segir hún. Yngsti drengurinn hafi til að mynda verið með margar skemmdar tennur og graftarkýli í munninum vegna rótarsýkingar og var sárkvalinn. Tannlæknaskýrslur sýni þetta svart á hvítu.
„Það var í raun óforsvaranlegt fyrir mig sem forsjáraðila að senda þau til baka á þessum tímapunkti,“ segir Edda.
Hún segist hafa ætlað með drenginn til tannlæknis og hafi bókað fyrir hann tíma, en þar sem þurfti að svæfa hann vegna mikilla tannviðgerða þurfti að fá leyfi hjá föður. Hann hafi hins vegar hótað stofunni lögsókn ef gerð yrði aðgerð á drengnum.
„Hver er að hugsa um þarfir þeirra, hver er forgangsröðun hans? Er það að hefna sín á mér eða gera það sem er börnunum fyrir bestu?“
Edda segist hafa vonast til að dómstólar tækju mark á þeim gögnum sem lögð voru fram um heilsu og líðan barnanna.
„Ég hélt þeim eftir og vonaðist eftir því, í ljósi aðstæðna, að þeir sæju af hverju ég gerði þetta. En ég fékk samt sex mánaða fangelsisdóm, óskilorðsbundinn.“
Í kjölfarið var kveðinn upp úrskurður í Noregi, án þess að móðir væri boðuð eða fengi að halda uppi vörnum, um að faðirinn skyldi fara með forsjá drengjanna og þeir skyldu áfram hafa lögheimili hjá honum. Umgengni móðurinnar skyldi takmörkuð með áðurnefndum hætti. Stúlkurnar skyldu hins vegar hafa lögheimili hjá móður sinni á Íslandi.
Faðirinn þarf nú að krefjast innsetningarmáls vilji hann reyna að fá drengina aftur til Noregs. Edda gerir ráð fyrir því að hann geri það, en hún vonast til að hagsmunir barnanna, fjölskyldunnar og vilji þeirra verði ofan á. Hún hafi ekki farið af stað í þetta ferli nema hún teldi það vera möguleika.
Hún segir drengina nú komna á þann aldur að þeir hafi sjálfir eitthvað um það að segja hvar þeir vilja búa. Síðast hafi þeir ekki fengið að tjá sig. „Það var brotið á þeim í innsetningarmálinu síðast með því að leyfa þeim ekki að tjá sig.“ Dæturnar fengu hins vegar að tjá sig og sögðust þær ekki vilja fara út aftur.
Núna komi það væntanlega til með að skipta máli að dæturnar, alsystur drengjanna, búi hér á landi. „Það er algjörlega gegn Barnasáttmálanum að aðskilja systkini,“ segir Edda.
Hvað varðar næstu skref segist hún vera að taka stöðuna varðandi skólagöngu drengjanna og annað. Þeir þurfi auðvitað að fara í skóla, en fyrst um sinn munu þeir verða í heimakennslu. Þá fari þeir að æfa fótbolta og sund. „Ég er ekki alveg tilbúin að sleppa af þeim hendinni allan daginn í skólanum. Ég er ekki alveg komin þangað. Núna erum við bara aðeins að njóta þess að vera saman.“