Mannréttindi brotin á hverjum degi

Geðdeild Landspítalans að Kleppi.
Geðdeild Landspítalans að Kleppi. mbl.is/Hari

Í skýrslu Umboðsmanns Alþingis, frá 30. mars 2022, í kjölfar eftirlitsheimsóknar á bráðageðdeild Landspítalans 32-C, koma fram alvarlegar ábendingar er varða mannréttindi og mannhelgi notenda geðheilbrigðisþjónustu Landspítalans.

„Það segir ákveðna sögu um almannaþjónustu okkar að OPCAT eftirlit og ábendingar umboðsmanns, á þremur lokuðum deildum á Kleppi árið 2018 (skýrsla kom út haustið 2019), virðist litlu eða engu hafa skilað þegar kemur að bættum aðbúnaði og mannréttindum notenda. Margar af þeim ábendingum sem þar komu fram eru endurteknar í skýrslu umboðsmanns nú,“ segir í yfirlýsingu Geðhjálpar vegna málsins. 

Fram kemur m.a. í skýrslu Umboðsmanns að af löglegri ákvörðun um frelsissviptingu leiðir ekki sjálfkrafa að önnur grundvallarréttindi s.s. friðhelgi einkalífs skerðist. Líkt og áður hafi verið rakið í skýrslu umboðsmanns vegna heimsóknar á þrjár lokaðar geðdeildir á Kleppi liggja ekki fyrir skýrar lagaheimildir samkvæmt íslenskum réttir til að beita sjúklinga á geðheilbrigðisstofnunum ýmiss konar inngripum, þvingunum og valdbeitingu.

„Þetta þýðir í raun að verið er að brjóta mannréttindi notenda geðþjónustu á Íslandi á hverjum degi. Lagaheimildir skortir en samt er verið að beita ýmiss konar inngripum, þvingunum og valdbeitingu,“ segir í yfirlýsingu Geðhjálpar um þetta. 

„Geðhjálp hefur ítrekað bent á þá alvarlegu staðreynd að tölfræði yfir nauðung og þvingun er hvergi að finna í kerfinu. Þetta er ekki boðlegt enda er ein forsenda þess að draga úr slíkum mannréttindabrotum að hafa upplýsingar um þau og tíðni þeirra. Þegar kemur að úrvinnslu áfalla með notendum, sem beittir eru nauðung og þvingun, þá er hún ekki fyrir hendi. Það getur ekki talist til eðlilegra meðferðarhátta að notendur þjónustunnar þurfi að leita sér áfallameðferðar á sinn eigin kostnað eftir dvöl á geðdeild,“ segir í yfirlýsingunni. 

Enn fremur kemur fram í yfirlýsingunni að geðheilbrigðiskerfið á Íslandi hafi verið fjársvelt um margra ára skeið. Í tölum frá árinu 2009 var umfang geðheilbrigðismála af heilbrigðiskerfinu metið um 25-30%. Fjármagnið sem sett var í málaflokkinn var metið um 11-12%. „Þetta getur ekki talist boðleg staða og verður að vinda ofan af. Að svipta fólk frelsi vegna úrræðaleysis er hvorki eðlilegt né siðlegt. Einnig verður að horfa til þess að stofnanir og deildir sem fólk er lokað inni á með þessum hætti eru úr sér gengnar og ekki boðlegar í því samfélagi sem við viljum búa í,“ segir í yfirlýsingunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert