Reykjavíkurborg hyggst tvöfalda lóðaframboð í borginni á hverju ári næstu fimm ár.
Þetta tilkynnti Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á opnum fundi um húsnæðismál í Ráðhúsi Reykjavíkur í morgun. Fundurinn bar yfirskriftina „Áratugur Reykjavíkur í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis“.
Borgarstjóri kallaði þar eftir húsnæðissáttmála fyrir höfuðborgarsvæðið í anda samgöngusáttmálans. Þá kynntu fjölmargir aðilar einnig áform sín um stórfellda uppbyggingu í borginni, m.a. einkaaðilar og fulltrúar óhagnaðardrifinna félaga sem hafa byggt hundruð íbúða á liðnum árum og eru að fara af stað með mikla uppbyggingu á næstu misserum.
Tvöföldun á lóðaframboði í Reykjavík er sett fram í ljósi þess skorts sem nú er á nýjum eignum á húsnæðismarkaði og er í takti við breytt mat Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um þörf á fjölda íbúða.
Stofnunin hefur metið þarfir markaðarins um 3.500-4.000 íbúðir á ári á öllu landinu. Með tvöföldun myndi hlutur Reykjavíkur í uppbyggingu á landinu vaxa frá því að vera þriðjungur í að verða að minnsta kosti helmingur uppbyggingar.
Borgarstjóri sagði þessa tvöföldun á lóðaframboði nema meira en helmingi þess húsnæðis sem þörf er fyrir á landinu hverju sinni.
„Þarna erum við að tvöfalda framboð þeirra íbúða sem fer í byggingu úr 1.000 íbúðum á ári í yfir 2.000. Borgin hefur þegar samþykkt skipulag sem mætir þessum markmiðum á þessu ári og því næsta, og birt áætlanir um næstu lóðaúthlutanir,“ sagði Dagur á fundinum.
„Þetta eru skýr skilaboð út á markaðinn og þótt Reykjavík hafi dregið vagninn í uppbyggingu íbúða undanfarin fimm ár þá ætlum við okkur enn stærri hluti og hvetjum önnur sveitarfélög til þess sama,“ bætti hann við.
Um „risastórt“ samfélagslegt verkefni sé að ræða og því þurfi fjármálastofnanir og byggingariðnaðurinn að „gera sitt“, að sögn Dags. Ekki sé nóg að bara Reykjavík sé að stórauka framboð öruggra íbúða frá óhagnaðardrifnum félögum og félagslegum íbúðum.
„Húsnæðismálin þarf að nálgast heildstætt og til lengri tíma. Það er ekki gott fyrir neinn að íbúðamarkaðurinn sé eins sveiflukenndur og hann hefur verið undanfarið. Ég kalla því eftir því að gerður verði húsnæðissáttmáli ríkis, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins, eins og gert var með samgönguinnviðina sem kallast samgöngusáttmáli.“