Saka Viðar um að fara á bakvið stjórnina

Viðar Þorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Eflingar.
Viðar Þorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Eflingar. Haraldur Jónasson/Hari

Viðar Þorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri stéttarfélagsins Eflingar hafði ekki heimild stjórnar félagsins fyrir þeim viðskiptum sem hann stofnaði til við Sigur vefstofu ehf., fyrir hönd félagins.

Þetta kemur fram í ályktun frá stjórn Eflingar, vegna lögfræðilegrar úttektar sem félagið óskaði eftir vegna viðskipta félagsins við vefstofuna ofangreindu á árunum 2018 til 2021, sem birt var á vef Eflingar í dag.

Bar umfang og kostnað ekki undir stjórnina

Lögfræðistofa, sem áður hefur sinnt lögfræðistörfum fyrir félagið, sá um úttektina en samkvæmt ályktun Eflingar voru helstu niðurstöður hennar þær að ákvarðanir um samningssamband félagsins við Sigur vefstofu ehf., umfang þess og kostnað, hafi ekki verið bornar undir stjórn félagsins með réttum hætti. Með því hafi fyrrverandi framkvæmdastjóri félagsins „farið gegn starfsskyldum sínum og heimildum með alvarlegum hætti“.

Í úttektinni hafi svo einnig komið fram gagnrýni á að stjórn hafi ekki sinnt eftirlitshlutverki sínu nægjanlega vel, með því að kalla eftir gögnum og upplýsingum, þrátt fyrir að tilefni til þess hafi nokkrum sinnum komið upp, en stjórn ber ábyrgð á rekstri og fjárhag félagsins.

Málið kalli á skýrara verklag og reglur

Stjórn Eflingar telur að draga megi mikilvægan lærdóm af málinu sem kalli á að komið verði á mun skýrara verklagi og reglum um verkaskiptingu stjórnar og framkvæmdastjóra og hvernig heimildir framkvæmdastjóra og annarra stjórnenda á skrifstofu félagsins séu afmarkaðar.

„Að tryggt sé með vandaðari hætti að fjármunum félagsmanna sé varið í samræmi við vilja stjórnar sem er kjörin af félagsmönnum til að bera ábyrgð á starfsemi félagsins,“ segir í ályktun stjórnarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert