Uppspretta hugmynda og nýsköpunar blasti við hverjum þeim sem gekk inn í Smáralindina á fyrstu hæð í dag, þar sem ungir frumkvöðlar á framhaldsskólastigi kynntu spennandi vörur á Vörumessu.
Kepptust nemendur við að heilla dómara upp úr skónum með fraktflutningalausnum, rústik ilmsettum, tattúum, ilmkertum og jöklavatni í dósum svo fátt eitt sé nefnt.
Flutningstorg er til að mynda efnilegt fyrirtæki sem fimm nemendur úr Verzlunarskóla Íslands hafa unnið að, að loknum fjölda funda með Icelandair Cargo, TVG-Zimsen og fleirum.
Hugmyndin hefur mótast í gegnum ferlið þar sem fyrirtækið byggir á flutningsfyrirtækjunum og þeirra þörfum, að sögn Helga Hrannars Briem:
„Þetta er fyrir fraktflutninga til og frá landinu. Fyrirtækin setja flutningsþörfina hjá sér inn á síðuna og síðan geta flutningsaðilarnir gert tilboð í þeirra sendingu,“ segir hann. Fyrirtækin ráða hve lengi sendingin er inni á síðunni og fá síðan lista yfir fyrirtæki sem geta annast flutninginn. Þá geta fyrirtækin sparað sér skrefin sem fylgja því að hafa samband við hvern og einn flutningsaðila.
Fallegar og lágstemmdari hugmyndir voru einnig áberandi á Vörumessunni og greip bás þeirra Evu Björnsdóttur og Kolbrúnar Tinnu Hauksdóttur athygli blaðamanns, sem vantaði einmitt ilmsett í bílinn.
„Ilmsettið kemur í kassa og þú setur ilmolíuna á viðinn og dreifir þessu. Þú ræður hvort þú hengir þetta á spegilinn eða setur þetta á blásturinn, það er eiginlega betra að setja þetta á blásturinn því þannig færðu meiri lykt,“ segir Eva sem sér um Ilm ásamt Kolbrúnu.
Flott útlit.
„Okkur langaði einmitt að hafa þetta svolítið flott. Oft þegar maður kaupir svona á bensínstöðvum þá er þetta oft bara svona fótur eins og margir kannast við. En við vildum hafa þetta stílhreint og með smá rústik-vibe.“ Stelpurnar gerðu spjöldin úr viðarefni sem þær urðu sér út um en olíurnar keyptu þær í jurtaaptótekinu. „En við gerðum flest annað, söguðum til dæmis spýturnar sjálfar,“ segir hún.
Alls taka 124 fyrirtæki þátt í Vörumessunni sem væri ekki til án JA Iceland – Ungra frumkvöðla. Um 600 nemendur hafa unnið hörðum höndum að sínum verkefnum og verður uppskeruhátíð haldin þann 29. apríl í Arion banka. Síðari hluti Vörumessunnar hefst klukkan 11.00, í Smáralind á morgun.