„Við sjáum og heyrum frásagnir ykkar“

Starfsfólk á fæðingarþjónustu Landspítalans hefur sent frá sér yfirlýsingu.
Starfsfólk á fæðingarþjónustu Landspítalans hefur sent frá sér yfirlýsingu. Ljósmynd/Colourbox

Starfsfólk fæðingarþjónustu Landspítalans vill koma því á framfæri að það heyrir og sér frásagnir kvenna sem finnst að ekki hafi verið á þær hlustað á meðgöngu og í fæðingu. Starfsfólkið leggi sig fram við að veita verðandi foreldrum vandaða og faglega þjónustu og hluti af því sé að hlusta og trúa. Þetta kemur fram í yfirlýsingu.

Mikil umræða hefur skapast á samfélagsmiðlum um ekki sé nægilega vel hlustað á konur á meðgöngu og í fæðingu þegar þær greina frá áhyggjum sínum eða óskum, eftir að Bergþóra Birnudóttir steig fram í fréttaskýringarþættinum Kveik og sagði sína sögu. Hún örkumlaðist við fæðingu dóttur sinnar sem var 24 merkur og er eitt stærsta barn sem fæðst hefur hér á landi.

Mikilvægt að verðandi foreldrar upplifi ekki óöryggi

Í yfirlýsingu starfsfólks fæðingarþjónustu Landspítala segir að það hafi ekki varið varhluta af þungri umræðu undanfarna daga.

„Hver ein og einasta frásögn hittir okkur í hjartastað og við viljum að konur og fjölskyldur þeirra viti að við sjáum og heyrum frásagnir ykkar,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.

Þar segir jafnframt að umræðan sem nú sé að eiga sér stað sé öllum nauðsynleg. Mikilvægt sé að verðandi foreldrar upplifi ekki óöryggi. Starfsfólkið vill að verðandi foreldrar viti að hægt sé að treysta því að þeir séu í öruggum höndum. Reynsla og menntun starfsfólks fæðingarþjónustu Landspítala sé með því besta sem gerist í faginu.

„Nánast öll samanburðartölfræði sem til er sýnir að gæði og öryggi þjónustunnar sem við veitum er með því allra besta í heiminum. Því forskoti ætlum við að halda. Við ætlum að læra af þeim frásögnum sem deilt hefur verið undanfarna daga, við höfum nú þegar hafið þá vinnu og markmið okkar er að þjónustan muni endurspegla það,“ segir í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert