Ég var algjörlega týndur

Ari hefur ferðast um heiminn í áratug en er nú …
Ari hefur ferðast um heiminn í áratug en er nú sáttur að vera heima og í háskólanámi en hann er í sálfræði og ætlar sér stóra hluti í framtíðinni. mbl.is/Ásdís


Í notalegri risíbúð í Vesturbænum býr Ari Másson ásamt ástralskri konu sinni Codie. Út um gluggann sést til sjávar en Ari segist hafa beðið alheiminn um íbúð sem væri nálægt Vesturbæjarlauginni og með útsýni út á sjó. Alheimurinn svaraði kallinu og hér er hann nú, eftir flakk um heiminn í áratug. Fyrsta sem blasir við inni í íbúðinni er himinblátt hengirúm sem hangir milli stofu og eldhúss en í því er ábyggilega gott að liggja og slaka á. Ari hellir upp á kaffi og segir mér að hann fari í sund daglega, þá aðallega til að fara til skiptis í kalda og heita pottinn. Í lauginni fyllist hann orku eftir langan dag yfir skólabókum, en Ari er nú sestur á skólabekk og lærir sálfræði við Háskóla Íslands. Það er aðeins ár síðan hann flutti loks heim og ákvað að tími væri kominn til að festa rætur um stund áður en ævintýraþráin vaknar á ný.

Ég er bómullarbarn

Ari er elstur af þremur bræðrum, sonur Margrétar Jónsdóttur Njarðvík, rektors á Bifröst, og Más Jónssonar, prófessors í sagnfræði, en yngri bræður hans Bergþór og Snorri hafa vakið athygli með hlaðvarpsþáttinn Skoðanabræður, auk þess sem Snorri er áberandi á skjám landsmanna sem fréttamaður.

„Ég er langelstur, fimm árum eldri en Bergþór. Ég fékk mjög mikla athygli sem barn og það hefur mótað mig. Æskan var ótrúlega ljúf en ég ólst upp í Bandaríkjunum fyrstu ár ævinnar en flyt heim áður en ég byrja í skóla. Ég kem mjög vel undan æskunni enda átti ég góða foreldra og fékk mikla ást. Ég er bómullarbarn,“ segir Ari og brosir.

Bergþór, Ari og Snorri á góðri stundu með móður þeirra …
Bergþór, Ari og Snorri á góðri stundu með móður þeirra Margréti Jónsdóttur Njarðvík.

„Þegar ég var að klára MR dreymdi mig um ferðalög. Í íslenskutímum lærði ég um skáldin sem fóru út um allt og mig langaði að læra að skrifa og yrkja eins og þau. En rödd samfélagsins sagði mér annað og ég byrjaði í lögfræði í Háskólanum í Reykjavík,“ segir hann og segist fljótt hafa áttað sig á því að það voru mistök.

„Þá tók ég örlagaríka ákvörðun og hætti, en það var mjög erfitt því það var mikil pressa á mér frá fjölskyldunni að mennta mig. En ég hætti og var bara alveg týndur,“ segir Ari og segist hafa verið með ýmsar hugmyndir en fann ekkert sem honum fannst henta sér.

„Ég fékk þá vinnu hjá Forlaginu í símasölu og þegar ekkert gekk að selja þá byrjaði ég að lesa. Ég las mig í gegnum alls konar bækur. Ég fann bók um indverska heimspeki sem talaði sterkt til mín. Ég ákvað þá að ég þyrfti að fara til Indlands,“ segir Ari og segist þá hafa unnið í nokkra mánuði áður en hann keypti sér farmiða aðra leið til Indlands, þá 21 árs gamall.

Týndir í Mumbai

Ari segir alveg magnaða upplifun að koma fyrst til Indlands, en hann lenti þar um miðja nótt.

„Ég tók leigubíl frá flugvellinum og sá þá fólk sofandi úti um allt, úti í götukanti og alls staðar í skúmaskotum. Ég hugsaði bara, „hvar er ég?““ segir hann og segir að sér hafi ekki litist á blikuna þegar leigubílstjórinn fann ekki hótelið.

„Þetta var frekar „scary“ hverfi og við týndir í Mumbai,“ segir Ari og segir þá að lokum hafa fundið hótelið. Þegar þangað var komið sló það hann að vikapiltarnir lágu sofandi á ganginum og á þökum húsa sem sáust út um gluggann mátti einnig sjá sofandi fólk.

„Þarna var ég í feitu sjokki. Þetta er allt annar heimur,“ segir Ari og segist hafa drifið sig strax eldsnemma næsta morgun í bæinn þar sem hann átti að vinna. Þar var vel tekið á móti honum, en Ari vann sex daga vikunnar næstu þrjá mánuðina.

Bítboxað á Indlandi

„Ég hafði aldrei áður upplifað að vera virkilega metinn,“ segir hann og segist hafa heillað krakkana með bítboxi, sem hægt er að útskýra sem tónlist og takt sem gert er með munninum einum saman.

„Ég bítboxaði stundum fyrir mörg hundruð manns og það kom fyrir að farið var með mig eitthvað annað til að sýna hvað ég gæti. Á Indlandi er farið með gesti eins og guði; það er þeirra heimspeki. Og ég er ekkert að ýkja; það elskuðu mig allir í skólanum. Krakkarnir kölluðu mig Aribaja, sem þýðir Ari bróðir. Hægt og rólega mýktist ég í þessari menningu en Indverjar eru allir í hjartanu á meðan Íslendingar eru allir í höfðinu. Ég leyfði mér smám saman að fara niður í hjartað, og af því ég var elskaður svo heitt og innilega í skólanum byrjaði ég að elska sjálfan mig eins og ég var. Ég hafði aldrei hugsað þannig á Íslandi en hér er menningin okkar svo köld og við svo dómhörð. En á Indlandi fékk ég meira sjálfstraust og öðlaðist betra samband við sjálfan mig,“ segir Ari og segir að þrátt fyrir að fólk búi ofboðslega þröngt, virðist fólk búa saman í sátt og samlyndi.

„Það voru allir rosalega góðir við mig þarna,“ segir Ari og útskýrir að eftir þessa þrjá mánuði hafi vinur hans komið út og þeir farið saman að ferðast um Indland í fjóra mánuði.

„Við fórum á tíu daga hugleiðslunámskeið og það er eitt það besta sem ég hef gert.“ 

Ég upplifði mikinn sannleika

Eftir heimkomuna frá Indlandi vissi Ari alveg hvað hann vildi gera næst. Þrátt fyrir pressu að drífa sig nú í nám fylgdi hann frekar innsæinu og fór til Suður-Ameríku. Eftir ár á Íslandi hélt hann því af stað í ævintýraleit.

„Ég fór um allt og var að reyna að finna mig; finna sannleikann. Ég fór inn í Amazon-frumskóginn að læra á kajak og þar kynnist ég meistara frá Síle sem stingur upp á að taka ayahuasca. Við fundum einhvern seiðkarl inni í frumskóginum og tökum ayahuasca og þar upplifði ég eins konar endurfæðingu og sá rosalegar sýnir. Þetta er hræðilegt ferli og ég mæli ekki með þessu fyrir neinn. Maður ælir og fær niðurgang og líður hrikalega illa. En þegar þú ert búinn að komast í gegnum það færðu sýnir. Ég upplifði mikinn sannleika og einingu með alheiminum,“ segir hann og segist hafa látið þetta eina skipti duga, enda erfið reynsla.

„Það var ekki séns að ég gerði þetta aftur!“ segir hann og segist hafa ákveðið í kjölfarið að hugleiða meira og stunda jóga. Hann fékk vinnu á jógasetri og var þar í mánuð sem sjálfboðaliði. Eftir það hélt hann áfram leit sinni að sannleikanum og prófaði þá san pedro-kaktus en í honum má finna ofskynjunarlyfið meskalín.

„Fólk er hrætt við svona ofskynjunarlyf en ef maður gerir þetta í réttu umhverfi hjá fólki sem veit hvað það er að gera er það í lagi. Ég var þarna að vinna úr tilfinningum.“

Nú áttir þú góða æsku og unglingsár án áfalla, hvers vegna varstu svona týndur?

„Já, ég var algjörlega týndur. Ég samþykkti ekki söguna sem samfélagið var að segja mér. Mér fannst ekki að ég ætti að fara í nám, kaupa mér íbúð og ala upp krakka. Ég sá ekki lífsfyllinguna í því. Pakkinn var ekki heillandi. Ég fann engan á Íslandi með nein svör þannig að ég þurfti að finna út úr þessu sjálfur; finna út hvað ég ætti að gera til að vera hamingjusamur,“ segir hann og segir að á þeim tíma hafi honum ekki liðið vel í Reykjavík.

„Nú líður mér alveg vel hér, enda er ég búinn að vinna í sjálfum mér. Það var aldrei Reykjavík sem lét mér líða illa, heldur leið mér bara illa í sjálfum mér. Ég hlustaði á innri rödd; ekki rödd samfélagsins. Og þá gerðust galdrar og allar dyr opnuðust.“

Varð að manni í Taílandi

Áður en Ari fór til Suður-Ameríku vann hann sem landvörður í Ásbyrgi. Eftir ferðina fékk hann aftur þá vinnu og þá hófst nýr kafli í lífi hans; Ari skiptist á að vinna í Ásbyrgi á sumrin og ferðast um heiminn á veturna.

Á eyju á Taílandi fann Ari sig vel og fannst …
Á eyju á Taílandi fann Ari sig vel og fannst hann eiga þar heima. Þar voru háir klettar þar sem hægt var að stunda klifur.

„Ásbyrgi er algjör náttúruparadís. Ég hélt áfram þar að læra spænsku og svo frönsku og gat talað við túristana. Ég eyddi ekki krónu og tók svo allan peninginn á haustin og fór að ferðast. Ég hafði kynnst konu í Suður-Ameríku sem var hálffrönsk og við urðum ástfangin. Til að gera langa sögu stutta fluttum við í hálft ár til Amsterdam og þar var ég að skrifa smásögur og skáldsögu. En árið 2015 var örlagaríkt því þá fann ég Taíland,“ segir Ari en hann átti svo eftir að eiga bækistöð næstu vetur í þorpinu Ton Sai sem er á lítilli eyju í Taílandi.

„Ég hafði kynnst aðeins klifri í Suður-Ameríku og elskaði að klifra innanhúss í Amsterdam. Ég sá myndband um klifur í Taílandi og þá kom innri röddin og sagði mér að fara til Taílands og gerast klifrari. Við fórum til Kambodíu en mér líkaði illa þar og við hættum saman og ég fór til Taílands í frelsið og ævintýri,“ segir Ari og sýnir blaðamanni myndir úr litla þorpinu en þar má sjá óspillta strönd, magnþrungna kletta og hitabeltisgróður.

„Þarna er paradís á jörðu fyrir ákveðið fólk. Þetta er ekkert fyrir alla, enda ekkert rafmagn þarna á daginn. Þarna fann ég andlegu fjölskyldu mína og þarna varð ég að manni. Ég kom þangað sem strákur en fór þaðan maður,“ segir hann og segist hafa þurft að horfast í augu við óttann þegar hann klifraði í þverhníptum klettunum.

„Fyrsta veturinn var ég þarna í sex mánuði. Þarna býr mikið af listafólki, ævintýrafólki, hippum og klifrurum. Þessi staður breytti mér. Í fyrsta skipti upplifði ég tilfinninguna að ég væri heima; hérna ætti ég heima. Mér finnst alveg næs að fara í Vesturbæjarlaugina, en í Ton Sai leið mér eins og ég væri heima. Ég eignaðist marga vini og þar kynntist ég konunni minni,“ segir Ari og segir að næstu sex árin hafi hann búið í Ton Sai nokkra mánuði á hverju ári. Þar notaði hann daginn til að klifra, hitta vini, djamma og slaka á. Í leiðinni lærði hann taílensku.

Ari upplifði mikið frelsi á ferðalögum sínum um heiminn.
Ari upplifði mikið frelsi á ferðalögum sínum um heiminn.

„Ég kenndi sjálfum mér taílensku og það fór mikill tími í það,“ segir Ari en hann hafði einsett sér að læra tíu tungumál fyrir þrítugt.

 „Það var þessi samviskusemi í mér. Til þess að réttlæta það fyrir sjálfum mér að ég væri ekki í háskólanámi að vinna að einhverju, þurfti ég að hafa eitthvert markmið. Þegar mamma spurði hvað ég væri að gera við líf mitt gat ég svarað að ég væri að læra tungumál. Ég ákvað 21 árs að læra tíu tungumál fyrir þrítugt og hef náð því nokkurn veginn,“ segir hann og segir taílensku erfiðasta og jafnframt öflugasta tungumál sem hann hefur lært. 

Ég byrjaði að vera einlægur

Kona Ara, Codie Louise Young, er frá Ástralíu en þau kynnstust fyrst árið 2015 þó að sambandið hafi ekki hafist fyrr en nokkru seinna.

Ari og Codie ferðuðust inn að miðri Ástralíu en þau …
Ari og Codie ferðuðust inn að miðri Ástralíu en þau kynntust í Taílandi.

„Við vorum fyrst bara vinir og hún var mjög skýr á því. Ég var alveg skotinn í henni en átti bara ekki séns. Hún setti mig ekki einu sinni í „friend zone“, heldur frekar svona „brother zone“. Ég var bara strákur, eins og ég segi,“ segir Ari og brosir.

„Árið 2018 gerist það að við missum sameiginlega vin, strák frá Kanada sem við höfðum kynnst í Taílandi. Þetta var það erfiðasta sem ég hef upplifað á ævinni; hann var einn besti vinur minn,“ segir hann og segir vin sinn hafa dáið úr heróínskammti sem fentanýl hafði verið blandað saman við. Vinurinn hafði þá verið edrú í fjögur ár en féll, með þeim afleiðingum að hann lét lífið.

Ari fann sig vel í klifri á Ton Sai í …
Ari fann sig vel í klifri á Ton Sai í Taílandi.

Ari segist hafa þá gert sér grein fyrir því að enginn er ódauðlegur.

„Þetta var það versta sem hafði komið fyrir mig en ég þroskaðist svo ótrúlega mikið á þessu. Þetta var eins og hreinsunareldur og ég byrjaði að vera einlægur. Ég hafði alltaf verið að grínast í fólki en hætti því að miklu leyti. Ég fór að vera ég sjálfur við fólk. Nokkrum mánuðum eftir lát hans hittumst við allir vinir hans í Ton Sai til að minnast hans og syrgja saman.“ 

Hef gaman af hversdagsleikanum

Ari segist hafa haft nógan frítíma undanfarinn áratug til að hugsa, ferðast, njóta lífsins og lesa allar þær bækur sem hann langaði að lesa.

„Þá vildi ég bara ferðast og vera frjáls. Nú er ég virkilega að njóta þess að vera í prógrammi.“

Ertu þá orðinn fullorðinn?

„Ekki kannski í dýpstu merkingu orðins, en ég hef aldrei verið jafn fullorðinn og ég er núna. Ég er mjög hamingjusamur í dag og hef gaman af þessu hversdagslega lífi,“ segir hann og segist hafa fundið innri ró á Íslandi í venjulegu lífi og háskólanámi.

Ari og Codie fundu ástina í Taílandi og eru nú …
Ari og Codie fundu ástina í Taílandi og eru nú hjón. Þau hyggjast flytja til Ástralíu eftir nokkur ár.

„Ég er mjög þakklátur fyrir allt sem ég hef og þakka alheiminum allt sem hann hefur gefið mér. Ég sé myndir frá vinum mínum í Taílandi og samgleðst þeim en ég vil frekar vera hér í stólnum að lesa og læra og klára fyrsta árið með stæl. Það er góð tilfinning að finna að ég er að vinna að einhverju áþreifanlegu. Ég veit svo nákvæmlega hvað ég vil gera og ég vil hafa menntun svo ég viti um hvað ég er að tala,“ segir Ari og segist gjarnan vilja vinna með vitundarvíkkandi lyfjum í framtíðinni. 

Að elska skilyrðislaust

Ari segir þau hjón hyggjast flytja til Sydney í Ástralíu eftir nokkur ár og þar gæti hann klárað meistaranám í sálfræði.

„Ég vil mennta sjálfan mig svo ég geti rætt þessi mál á mjög vísindalegan og rannsakaðan hátt; ég vil ekki vera bara einhver hippi að segja fólki að taka ayahuasca. Þetta á eftir að bylta menningu okkar að einhverju leyti,“ segir Ari og segist hlynntur því að öll vímuefni verði leyfð.

Við förum að slá botninn í spjallið en blaðamaður á þó eftir eina djúpa spurningu.

Ertu búinn að finna tilgang lífsins?

„Já, að elska skilyrðislaust. Aðra og sjálfan sig.“

Ítarlegt viðtal er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina þar sem lesa má um fleiri ævintýri Ara Mássonar. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert