Landsréttur snéri við dómi Héraðsdóms Austurlands frá því í júní árið 2020 um að sveitarfélagið Hornafjörður væri skaðabótaskylt gagnvart Ice Lagoon ehf. vegna ætlaðs tjóns á starfsemi fyrirtækisins sem hafi komi til vegna ákvarðana sveitarfélagsins.
Héraðsdómur hafði viðurkennt skaðabótaskyldu sveitarfélagsins, en niðurstöðu dómsins var áfrýjað til Landsréttar sem komst að gagnstæðri niðurstöðu og var Hornafjörður sýknaður af kröfum Ice Lagoon. Þá var málskostnaður var felldur niður.
Ice Lagoon höfðaði mál á hendur Hornafjarðar og krafðist viðurkenningar á skaðabótaskyldu sveitarfélagsins vegna ætlaðs tjóns þess á ferðaþjónustustarfsemi fyrirtækisins vegna ákvarðana sem sveitarfélagið tók 20. maí 2010, 27. janúar og 15. ágúst 2014, og 10. mars 2015.
Í dómi Landsréttar kom fram að Ice Lagoon hefði höfðað málið 28. maí 2018 og væru skaðabótakröfur sem leiða kynni af ákvörðun Hornafjarðar 20. maí 2010 fallnar niður fyrir fyrningu. Hefði Ice Lagoon því ekki lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um viðurkenningu á skaðabótaskyldu vegna hennar og var þessum hluta kröfugerðar fyrirtækisins því vísað frá héraðsdómi án kröfu.
Tók Landsréttur næst til skoðunar hvort Hornafjörður hefði með ákvörðunum sínum 27. janúar og 15. ágúst 2014, og 10. mars 2015 bakað sér skaðabótaábyrgð á ætluðu tjóni Ice Lagoon af því að hafa ekki fengið útgefið stöðuleyfi vegna starfsemi sinnar frá austurbakka Jökulsárlóns. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki.