Á Hótel Sögu dvelja nú fimmtíu og sjö einstaklingar undir alþjóðlegri vernd vegna flótta frá Úkraínu. Mörg börn eru í þeim hópi.
Markús Már Efraím Sigurðsson, íbúi í Vesturbæ Reykjavíkur, tók af skarið og stofnaði facebook-hópinn „Nágrannar okkar á Hótel Sögu.“ Þar sem íbúar geta miðlað upplýsingum og samræmt aðstoð til handa nýju nágrönnunum svo hún nýtist sem best.
Sjálfur hefur Markús verið ötull við að leggja hönd á plóg til þess að auðvelda líf þeirra sem hingað eru komnir á flótta frá átökunum í Úkraínu.
Flóttafólkið mun búa í mánuð á Hótel Sögu, að sögn Markúsar, en þar sem rekstur hótelsins hefur legið niðri um nokkurt skeið hefur fólkið hvorki aðgang að eldunaraðstöðu, mat, þvottavélum eða hlýjum fatnaði. Þá fá þau átta þúsund krónur á viku til þess að afla sér nauðsynja.
Markús vakti athygli á þessu inn á facebook-hópi íbúa Vesturbæjar til þess að láta reyna á samstöðumátt nærsamfélagsins.
Viðbrögðin létu ekki á sér standa en það bætist stöðugt í hóp þeirra sem hyggjast leggja sitt af mörkum og eru nú rúmlega 300 manns komnir í hópinn „Nágrannar okkar á Hótel Sögu.“
„Margir voru fljótir að bregðast við, fólk er búið að redda kvöldmat og nasli, bjóðast til að fá fjölskyldurnar til sín í mat og svo eru veitingastaðir að bjóða þeim í mat.“
Hópurinn er mjög virkur en Vesturbæingar keppast við að bjóða fram fatnað, dót, mat og aðstoð.
Þá kom einnig upp hugmynd að standa að skemmtun á sundlaugartúni fyrir krakkana til þess að bjóða þau velkomin í hverfið og skapa vettvang fyrir þau að kynnast krökkunum í Vesturbænum.