Guðmundur Henrý Stefánsson, togaraskipstjóri frá Skagaströnd, náði í kvöld ljósmynd af Prinsinum af Wales sem stefnir nú í átt að Reykjavík. Flugmóðurskipið er eitt af krúnudjásnum breska sjóhersins.
Myndin er tekin 28 sjómílur suðvestur af Reykjanesi og eru tvö fylgdarskip með í för, að því er fram kemur í facebook-færslu Kristjáns Johannessen, stjórnmála- og stjórnsýslufræðings.
Þetta er fyrsta ljósmyndin sem næst af skipinu á leið sinni til landsins.
Þetta er líklega í fyrsta skipti frá lokum síðari heimsstyrjaldar sem flugmóðurskip kemur svo nærri ströndum landsins. Kristján segir að Atlantshafsbandalagið sé með þessu að senda Rússum afar skýr skilaboð.