Tæplega 600 hafa komið frá Úkraínu

Úkraínsk börn komin til Íslands. Tuttugu og sjö kom til …
Úkraínsk börn komin til Íslands. Tuttugu og sjö kom til landsins frá Úkraínu í gær og gáfu sig fram. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tuttugu og sjö manns á flótta frá Úkraínu komu til Íslands í gær. Opinber fjöldi þeirra sem flúið hafa landið til Íslands er þá farinn að nálgast sex hundruð manns frá því innrás Rússa í Úkraínu hófst fyrir fimm vikum síðan.

Gylfi Þór Þorsteinsson aðgerðastjóri vegna komu flóttafólks frá Úkraínu segir mismunandi eftir dögum hversu margir komi hingað og óski eftir vernd.

Mun bara halda áfram að stækka

Gylfi Þór Þorsteinsson.
Gylfi Þór Þorsteinsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Á föstudag kom enginn til okkar frá Úkraínu en svo komu tuttugu og sjö í gær. Þar af leiðandi telur hópurinn frá Úkraínu 587 manns. Það er nokkuð ljóst að þessi hópur mun bara halda áfram að stækka þótt við höfum ekkert í hendi hvað það varðar,“ sagði Gylfi þegar mbl.is hafði samband við hann í dag.

Aðstæður sem upp koma hjá Gylfa og hans fólki eru ekki alltaf fyrirsjáanlegar. Til að mynda voru börn flóttafólks frá Úkraínu færð frá Ásbrú og í húsnæðið sem áður hýsti Hótel Sögu. Ásbrú er á Miðnesheiði og því nærri alþjóðaflugvellinum við Leifsstöð. Börnin urðu hrædd þegar þau heyrðu í flugvélum. 

„Þetta var ekki stór hópur barna en þetta varð til þess að við þurftum að bregðast hratt við og færa þau. Þótt Hótel Saga sé ekki langt frá Reykjavíkurflugvelli þá er það allt annars eðlis,“ segir hann.

Eins og er hefur aðgerðahópurinn eina hæð á Hótel Sögu til notkunar. Gylfi bendir aftur á móti á að víða séu gistiheimili og hótel þar sem fólk frá Úkraínu dvelur enda er þau orðin tæplega sex hundruð hérlendis eins og áður segir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert