Töldu ekkert vera að nema gelgjuskeiðið

Mægðurnar, Ingunn Gísladóttir og Aníta Ósk Sommer.
Mægðurnar, Ingunn Gísladóttir og Aníta Ósk Sommer. Ljósmynd/Aðsend

Móðir ungrar konu með endómetríósu segir framkomu lækna í garð dóttur sinnar síðustu ár hafa verið „svakalega“. Vantrú og hroki einkenndu viðmót þeirra og töldu læknar ekkert að dóttur hennar þrátt fyrir nánast stöðugar blæðingar í tvö ár og gríðarlega mikla verki. Þótti líklegra að unga konan væri að ganga í gegnum gelgjuskeið enda væri hún of ung til að geta verið með endómetríósu. 

Ingunn Gísladóttir, móðirin, lýsir því sem skelfilegri reynslu að horfa upp á barnið sitt kveljast af verkjum. Hún segir dóttur sína jafnframt hafa upplifað sig sem byrði vegna kostnaðar sem lagðist á fjölskylduna vegna tíðra heimsókna á heilbrigðisstofnanir og til sálfræðings. Þá hafi hún einnig upplifað sig sem tilgangslausa og vildi hún losna við móðurlífið svo það yrði loks friður á heimilinu og „ekki meira lækna-vesen“.

Aníta Ósk Sommer, unga konan, greindist loks með sjúkdóminn í nóvember á síðasta ári eftir að hafa rætt við íslenskan sérfræðing í kvensjúkdómalækningum sem kom frá Bandaríkjunum og gekkst hún undir aðgerð þremur mánuðum síðar, eða í febrúar á þessu ári. Hún er nú allt önnur og þarf varla á verkjalyfjum að halda.

Fann fyrir þunglyndi og kvíða

Aníta Ósk leitaði fyrst til læknis þegar hún var 15 ára gömul vegna sársaukafullra túrverkja. Þá ávísaði læknirinn henni pilluna. Að sögn Ingunnar hjálpaði það til að byrja með en svo ágerðust verkirnir. Dóttir hennar fékk þá nýja tegund af pillu sem gerði ekki mikið gagn en svo kom að því að sú pilla var hvergi fáanleg á landinu í marga mánuði.

Að sögn Ingunnar tók sjúkdómurinn verulega á dóttur hennar sem svaf nánast allan daginn.

„Ég var farin að hallast að því að hún væri með þyrnirósarheilkennið því hún svaf allan sólarhringinn. Þetta voru náttúrulega bara verkirnir sem hafa slökkt á líkamanum. [...] Í rúm tvö ár var hún meira og minna stöðugt á blæðingum. Hún náði kannski viku pásu á milli.“

Aníta Ósk hélt ekki einbeitingu, var orðin klaufsk, fann fyrir bæði þunglyndi og kvíða, flosnaði upp úr skóla og átti í erfiðleikum með að klára fullan vinnudag. Um mikla breytingu var að ræða en fyrir hafði dóttir hennar verið venjulegur unglingur og ágætis námsmaður.

Of ung til að vera með endó

Ingunni var snemma farið að gruna að dóttir hennar væri með endómetríósu en það þótti þó ekki líklegt.

„Við höfðum hitt tvo kvensjúkdómalækna og svarið var alltaf bara nei, hún er of ung.“

Mæðgurnar héldu áfram að leita svara hjá læknum en komu ítrekað að tómum kofanum – ekkert þótti vera að Anítu Ósk líkamlega.

„Þá er komin þessi tilfinning um að hún sé bara móðursjúk og að þetta sé bara allt í hausnum á henni. Ég tók þá ákvörðun um að biðja um tilvísun til sálfræðings og læknirinn sem sá um þá beiðni vildi meina að hún væri bara á gelgjunni og það væri ekkert að.

Þegar það er farið að líða á þá einbeita þeir sér bara að andlegum veikindum og sleppa því að spá í orsök og afleiðingu. Hún var komin út í það að skaða sjálfa sig, þá brunaði ég með hana beint á heilsugæslu. Þá hittum við kandídat sem gaf sér tíma í að spjalla svakalega vel og lengi við hana. Það hjálpaði henni mjög mikið.“

Aníta Ósk var þá sett á kvíðastillandi- og þunglyndislyf en þeim fylgdu slæmar aukaverkanir og gat hún ekki losað þvag í nokkra daga.

„Þá kom einn læknirinn inn og sagði „Já hún er örugglega bara með klamydíu“ og labbaði svo út. Svona voru svörin oft hjá sumum læknum.“

Staðfesti grun þeirra

Eftir að hafa kvalist í rúm fjögur ár fékk Aníta Ósk loks greiningu í nóvember á síðasta ári, þá 19 ára gömul, þegar Jón Ívar Einarsson, prófessor við læknadeild Harvard háskóla og sérfræðingur í kvensjúkdómalækningum, kom til landsins.

„Ég hringdi síðasta sumar og bað um að hún yrði sett á biðlista og að hún fengi tíma hjá honum fljótlega. Ég hringdi reglulega til að ýta á eftir. Hún fékk tíma fyrsta nóvember og hann hlustar bara á söguna og þarf ekki einu sinni að skoða hana og segir „Það er greinilegt að þú ert bara með endó“. Hann sendir hana svo í myndatöku sem staðfesti okkar grun, að hún væri með endó.“

Þremur mánuðum síðar var hún færð í aðgerð, eða þann 11. febrúar, og nú rúmum mánuði seinna er hún allt önnur manneskja. 

„Hún er farin að fara út og hanga með vinum öll kvöld, eitthvað sem hún hefur ekki gert í þrjú ár. Hún var að byrja í nýrri vinnu. Þannig að þetta er allt til betri vegar núna. Hún er sjálf byrjuð að trappa niður þunglyndislyfin því henni finnst hún ekki þurfa á þeim að halda lengur. Hún hefur varla tekið verkjalyf eftir að hún fór í aðgerðina því verkirnir við aðgerðina sjálfa voru svo litlir miðað við það sem hún var búin að vera með öll hin árin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert