Andlát: Elín Pálmadóttir blaðamaður

Elín Pálmadóttir (1927-2022) blaðamaður á Morgunblaðinu. Myndin var tekin 2003.
Elín Pálmadóttir (1927-2022) blaðamaður á Morgunblaðinu. Myndin var tekin 2003. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson.

Elín Pálmadóttir blaðamaður er látin, 95 ára að aldri. Hún var fædd í Reykjavík 31. janúar 1927, dóttir Pálma Hannesar Jónssonar skrifstofustjóra Kveldúlfs (1902-1992) og Tómasínu Kristínar Árnadóttur húsfreyju (1899-1953). Hún átti fjögur systkini, Pétur, Sólveigu, Árna Jón og Helgu.

Elín lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1947 og lagði síðan stund á nám í ensku og frönsku við Háskóla Íslands og síðar erlendis. Þá gekk hún til liðs við utanríkisþjónustuna og starfaði m.a. við hinar nýstofnuðu Sameinuðu þjóðir og í sendiráðinu í París. Þar tók Elín miklu ástfóstri við Frakkland og franska menningu, sem hún bjó að æ síðan.

Elín hóf störf sem blaðamaður hjá Vikunni 1952, en 1958 réðst hún til Morgunblaðsins þar sem hún vann þar til hún lét af störfum fyrir aldurs sakir 1997. Hún settist þó ekki í helgan stein, heldur hélt áfram góðu sambandi við blaðið, skrifaði greinar og viðtöl í það, og sinnti bókaskrifum. Hún var handhafi blaðamannaskírteinis nr. 1 þegar hún lést.

Elín var bæði kvenréttindakona og borgaraleg í sinni og tók dyggan þátt í flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins; sat m.a. í stjórn Hvatar, Varðar og Landssambands sjálfstæðiskvenna. Hún sat í borgarstjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn 1970-1978, varaþingmaður 1978-84, stofnaði og var fyrsti formaður Umhverfismálaráðs Reykjavíkur. Hún lét sér mjög annt um náttúru landsins, skrifaði mikið um umhverfismál og kynnti náttúruvísindarannsóknir á síðum blaðsins, en utan blaðsins var hún meðal frumkvöðla að stofnun Bláfjallafólkvangs og Reykjanesfólkvangs. Hún var heiðruð fyrir þau störf 2004 af öllum helstu náttúruverndarsamtökum landsins.

Hún hlaut heiðursviðkenningu Blaðamannafélagsins 1992, riddarakross fálkaorðunnar 1995 og var sæmd æðstu heiðursorðu Frakklands, Légion d'honneur, árið 2015.

Eftir hana liggja ýmsar merkar bækur, svo sem um vinkonu hennar, Gerði Helgadóttur myndhöggvara, Fransí biskví um franska Íslandssjómenn, sem var tilnefnd til bókmenntaverðlaunanna 1990 og kom einnig út á frönsku, og endurminningarnar Eins og ég man það.

Elín var forvitin og athugul að eðlisfari, átti auðvelt með að tala við fólk og bjó yfir ríkri frásagnargáfu, sem nýttist henni vel í starfi, bæði sem blaðamaður, afkastamikill rithöfundur og stjórnmálamaður. Hún var vinamörg og vinsæl, frumkvöðull í íslenskri blaðamennsku.

Morgunblaðið og samstarfsmenn hennar þakka áratugalöng störf og samfylgd og votta ættingjum hennar fyllstu samúð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert