Katrín: Verður að liggja fyrir hverjir keyptu

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að þegar ríkiseign er seld, á borð við Íslandsbanka, þá eigi að liggja fyrir hverjir keyptu. „Það eru upplýsingar sem íslenskur almenningur hefur heimtingu til.“

Katrín segir ennfremur, að ef það séu einhver tæknileg atriði sem valdi því að Bankasýsla ríkisins telji sig ekki geta birt þær upplýsingar, þá telji hún réttast að Alþingi geri viðeigandi breytingar á lagaumhverfinu þannig að unnt verði að birta þær. „Því annað gengur ekki. Þessum sjónarmiðum hef ég komið skýrt á framfæri við stjórn og framkvæmdastjóra Bankasýslu ríkisins, á ráðherranefndarfundi um efnahagsmál, sem haldinn var á föstudag,“ sagði Katrín í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.

Hún bætti við að þegar um væri að ræða aðferðafræði á borð við þessa leið sem var farin, þá myndi ávallt vakna tortryggni ef ekki lægi fyrir hverjir keyptu. 

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, spurði ráðherra út í sölu bankans og sagði að það væri óásættanlegt að íslenska þjóðin fengi ekki að vita allar staðreyndir málsins; ekki síst hverjir fengu að kaupa og á hvaða forsendum. Logi sagði að augljós spilling blasti við í tengslum við söluferlið.

Vandinn að það ríkir ekki fullt gagnsæi

Katrín þakkaði Loga fyrir fyrirspurnina en sagðist þó vera ósammála honum um að augljós spilling blasti við öllum. „Vandinn er sá að það ríkir ekki fullt gagsæi um ferlið og það gengur ekki. Og þar erum við háttvirtur þingmaður sammála.“

Katrín greindi ennfremur frá því, að fjármálaráðherra hefði óskað eftir lista með þeim fjárfestum sem keyptu í útboðinu, með bréfi til Bankasýslunnar þann 30. mars. „Ég tel fulla ástæðu til þess að þessar upplýsingar verði afhentar. Það hefur verið óskað eftir áliti fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands um hvort það séu einhverjar lagalegar hindranir í þeim vegi og sé það svo þá tel ég eðlilegt að Alþingi taki það til sérstakrar skoðunar,“ sagði forsætisráðherra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert