Meirihluti horft á klám í 10. bekk

Á bilinu tvisvar til þrisvar sinnum fleiri strákar en stelpur …
Á bilinu tvisvar til þrisvar sinnum fleiri strákar en stelpur í grunnskóla hafa horft á klám á netinu. mbl.is/ThinkstockPhotos

Tæplega þrír af hverjum tíu nemendum í 8. bekk hafa horft á klám á netinu. Í 10. bekk hefur meirihluti nemenda horft á klám og í framhaldsskóla er hlutfallið sjö af hverjum tíu nemendum. 

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Fjölmiðlanefndar og Menntavísindastofnunar um börn og netmiðla sem fjallar um áhorf á klám á netinu.

Á bilinu tvisvar til þrisvar sinnum fleiri strákar en stelpur í grunnskóla hafa horft á klám á netinu. Munur milli stráka og stelpna er mestur í 9. bekk þar sem tæplega þrefalt fleiri strákar en stelpur hafa horft á klám. Í framhaldsskóla hafa átta af tíu strákum horft á klám samanborið við rúman helming stelpna.

Niðurstaða eigin leitar

Þátttakendur á aldrinum 13-18 ára, sem höfðu horft á klám á netinu, voru spurðir nánar út í ástæður þess og aðdraganda síðast þegar það gerðist að þeir horfðu á klám. Í langflestum tilfellum var það niðurstaða þeirrar eigin leitar.

Í 8.-10. bekk grunnskóla sögðu 10% nemenda að vinur eða vinkona hefði sýnt þeim klámefnið síðast þegar þau horfðu á slíkt. Lægra hlutfall þátttakenda í framhaldsskóla (4%) hafði horft á klám vegna þess að vinur eða vinkona hafði sýnt þeim það. Samtals er því lágt hlutfall ungmenna sem verða fyrir því að horfa á klám án þess að hafa leitað eftir því sjálf.

Fáir þeirrar skoðunar að klámið væri ógeðslegt

Fjórum af hverjum tíu ungmennum á aldrinum 13-18 ára líkaði það síðast þegar þau horfðu klám. Um fjórðungi nemenda í 8.-10. bekk og fimmtungi í framhaldsskóla var alveg sama. Um einum af hverjum tíu nemendum á báðum skólastigum þótti klámið spennandi. Fáir voru þeirrar skoðunar að þeim hafi þótt klámið ógeðslegt, eða aðeins 4% í 8.-10. bekk og 2% í  framhaldsskóla. 

Skýrslan er fjórði hluti af sjö og byggir á niðurstöðum könnunarinnar „Börn og netmiðlar“ sem Menntavísindastofnun framkvæmdi fyrir Fjölmiðlanefnd í 23 grunnskólum og 23 framhaldsskólum meðal grunn- og framhaldsskólanema á aldrinum 9-18 ára .

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka