UJ krefjast afsagnar Sigurðar Inga

Ragna Sigurðardóttir, forseti Ungra jafnaðarmanna.
Ragna Sigurðardóttir, forseti Ungra jafnaðarmanna. Ungir jafnaðarmenn/Hari

Ungir jafnaðarmenn fordæma harkalega þau ummæli sem innviðaráðherra lét falla í flokkaboði Framsóknarflokksins í tengslum við Búnaðarþing 2022. Í sérstakri ályktun sem þeir sendu frá sér fyrr í kvöld segja þeir að ummælin hafi falið í sér niðrandi orðalag um húðlit Vigdísar Häsler, framkvæmdastjóra Bændasamtaka Íslands og krefjast þeir afsagnar innviðaráðherra vegna þeirra. 

Í ályktuninni segir m.a. að UJ standi með Vigdísi Häsler, trúi hennar frásögn og annarra starfsmanna Bændasamtakanna og að þeir krefjist „afsagnar innviðaráðherra sem sýndi með orðum sínum rasískt viðhorf sem á ekki að viðgangast í íslensku samfélagi.“

Ungir jafnaðarmenn fordæma jafnframt „framkomu aðstoðarmanns ráðherra í málinu sem neitaði því að ummælin hefðu fallið, veitti fjölmiðlum misvísandi upplýsingar og gerði þar með lítið úr ummælunum og upplifun Vigdísar sem ummælin beindust að.“

Í ályktuninni segir ennfremur að óumflýjanlegt sé að setja ummælin í samhengi við „rasíska kosningabaráttu Framsóknarflokksins í borgarstjórnarkosningum árið 2014 og tilraunir ríkisstjórnarinnar til að herða enn á útlendingalöggjöf í landinu.“

Þá furða þeir sig á framgöngu forsætisráðherra, sem fari með jafnréttis- og mannréttindamál í ríkisstjórn, en UJ segir að hún hafi vikið sér í dag undan því að svara spurningum um hvort ummæli innviðaráðherra samræmdust siðareglum ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi.

„Það eru vonbrigði að forsætisráðherra Íslands taki ekki afdráttarlausa afstöðu gegn rasisma,“ segir í lokaorðum ályktunarinnar, sem Ragna Sigurðardóttir, forseti UJ, undirritar fyrir hönd ungliðahreyfingarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert