Hanna Katrín Friðriksson þingflokksformaður Viðreisnar vakti athygli á þeirri mismunun sem konur verða fyrir í heilbrigðiskerfinu í umræðu um störf þingsins á Alþingi í dag.
„Það eru margar áskoranirnar sem heilbrigðiskerfið okkar stendur frammi fyrir og ýmsir eldar brenna. En það réttlætir ekki að við höldum áfram á braut þessarar mismununar. Heilbrigðisráðherra og við þingmenn öll berum einfaldlega ábyrgð á því að svara kallinu. Annað er hreinræktaður aumingjaskapur,“ sagði hún.
Hanna Katrín fjallaði um endómetríósu í ræðu sinni og sagði það með ólíkindum að árið 2020 hafi heilbrigðisvísindin og heilbrigðiskerfið okkar ekki meiri áhuga. Þess í stað mæti sjúklingar skilnings- og aðgerðaleysi og rekast víða á veggi í heilbrigðiskerfinu.
„Hér er rétt að geta þess að sjúkdómurinn leggst eingöngu á konur, reyndar um 10%, en bara konur,“ sagði Hanna Katrín.
Þá minntist hún á sögur kvenna sem hafa stigið fram undanfarið og lýst skelfilegri reynslu sinni af barnsburði þar sem barn eða móðir hafi hlotið varanlega skaða og jafnvel dáið.
„Því miður verður aldrei hægt að koma í veg fyrir slíkt með öllu, trúi ég, en það sem þessar konur eiga sameiginlegt er upplifunin af því að ekki hafi verið hlustað á þær. Þær hafi fundið og þær hafi vitað að eitthvað var að, þær hafi vitað lausnina en að ekki hafi verið hlustað á þær,“ sagði Hanna Katrín.