Litlu mátti muna í gærkvöldi þegar Kristinn Már Þorsteinsson frá Dalvík lagði af stað að sækja elstu dóttur sína til Akureyrar, þegar bíll hans varð alelda á örskotsstundu.
„Ég er að keyra hérna upp hálsinn í átt að Akureyri þegar ég finn svona gúmmí eða rafmagnsbrunalykt sem er erfitt að lýsa. Ég slekk á hitanum í stýrinu og sætinu og fer að fikta í miðstöðinni en lyktin fer ekkert.“
Þegar Kristinn opnaði bílrúðurnar sér hann reyk liðast upp frá stýrinu um leið og trekkurinn kemur inn. „Það var innskot þarna við veginn og ég fer þangað og drep á bílnum. Þá heyri ég snarkla í mælaborðinu og held að það sé kviknað í vélinni og fór út og opnaði húddið en sá ekkert. En þegar ég er að fara aftur inn í bílinn sé ég speglun af eldglæringum hjá pedölunum og átta mig á því að það var kviknað í undir mælaborðinu og stýrinu.“
Kristinn hætti við að fara inn í bílinn og kom sér í örugga fjarlægð og hringdi í 112. Hann var vart búinn að hringja þegar bíllinn verður alelda. „Ég hafði ætlað að bjarga einhverju drasli úr bílnum, en það gekk ekki og það brunnu tveir barnabílstólar í bílnum.“
Lögreglan og slökkvilið mætti fljótt á svæðið og tóku skýrslu, en Kristinn segist enn sleginn yfir þessu. „Ég hafði fyrr um daginn verið að keyra sex ára dóttur mína og vinkonu hennar í bílnum, og má ekki til þess hugsa að þær hefðu verið í hættu.“