„Ég ber fullt traust til Sigurðar Inga“

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, segist bera fullt traust til Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins, en í gær var mikið fjallað um ummæli sem Sigurður Ingi lét falla um Vig­dísi Häsler Sveins­dótt­ur, fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­taka Íslands,á flokksþingi í tengslum við Búnaðarþing um helgina.

„Hann hefur svarað fyrir þetta með sinni yfirlýsingu og því sem þar er og ég tek undir það sem í henni er. Hann sér eftir þessu og sýnir þarna ákveðna mannlega hlið og við gerum öll mistök. Maður sem ekki gerir mistök hann hættir að vera maður. Það er bara mannlegt og við höfum rætt þetta og ég ber fullt traust til hans,“ sagði Ásmundur við mbl.is eftir ríkisstjórnarfund sem lauk á ellefta tímanum í dag.

Spurður hvort afsagnarkrafa hafi komið til greina segir Ásmundur svo ekki vera. „Ég ber fullt traust til Sigurðar Inga og finnst hann hafa svarað þessu á mannlegan og heiðarlegan hátt.“

Spurður út í hvort áfengi hafi verið haft um hönd þegar ummælin voru látin falla segir Ásmundur að vaninn á þessum Búnaðarþingsboðum hjá stjórnmálaflokkunum sé að bjóða upp á bæði mat og drykk. „En ég var farinn þegar þetta umrædda atvik átti sér stað,“ bætir hann við.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í gær á Alþingi að ummæli Sigurðar Inga væru „algjörlega óásættanleg.“ Sigurður Ingi hefði hins vegar beðist afsökunar á ummælum sínum og að afsökunarbeiðnin endurspegli þá afstöðu hans að ummælin hafi verið röng. Sagði hún skipta máli þegar menn biðjast afsökun þegar hún var spurð hvort Sigurður ætti að segja af sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert