Fallið frá skerðingum á raforku

Tinna Traustadóttir, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Landsvirkjunar.
Tinna Traustadóttir, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Landsvirkjunar.

Snemmbúin vorflóð hafa aukið svo innflæði vatns í Þórisvatn að Landsvirkjun treystir sér til að falla frá skerðingum á orkuafhendingu til stórnotenda og fjarvarmaveitna. Tók ákvörðunin gildi á miðnætti. Í síðustu viku var hætt við að nýta heimildir í samningum við stórnotendur um endurkaup á þegar keyptri orku, við margfalt hærra verði. Enn eru í gildi skerðingar á raforku til fiskimjölsverksmiðja.

„Það er ekki lengra síðan en í mars, fyrir um mánuði, að við höfðum verulegar áhyggjur af vatnsstöðunni. Það sem hefur gerst frá 10. mars er óvenjulegt. Við höfum fengið meira innrennsli en við áttum von á. Það sýnir í hnotskurn við hvað er að etja þegar náttúruöflin eiga í hlut,“ segir Tinna Traustadóttir, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Landsvirkjunar.

Staðan í vatnsbúskap Landsvirkjunar hefur verið með erfiðasta móti í vetur. Þurrkar síðastliðið haust og sumar gerðu það að verkum að Þórisvatn fylltist ekki en það er mikilvægasta miðlunarlón Landsvirkjunar á stærsta vinnslusvæði fyrirtækisins.

Bræðslur áfram skertar

Í desember var tilkynnt skerðing á afhendingu raforku til fiskimjölsverksmiðja og í byrjun febrúar tók gildi skerðing til tíu stórnotenda og sjö fjarvarmaveitna. Það leiddi til þess að fiskimjölsverksmiðjurnar þurftu að nota olíu til að knýja bræðslurnar á einni stærstu loðnuvertíð seinni ára og fjarvarmaveiturnar þurftu sömuleiðis að nota olíukatla í stað raforku. Stóriðjuverin þurftu að minnka framleiðslu. Reiknað var með að skerðingarnar stæðu út aprílmánuð.

Vegna úrkomu og hlýinda hefur innrennsli í Þórisvatn leitt til þess að hætt er að minnka í lóninu og þess í stað hefur vatnsyfirborðið hækkað um einn metra á um tveimur vikum.

Allar skerðingar hafa nú verið afnumdar nema til fiskimjölsverksmiðja og fiskþurrkana sem eru á skerðanlegum samningum. Tinna segir að það stafi af því að vatnsforðinn í Þórisvatni sé enn sögulega lítill og Landsvirkjun þurfi að sjá hverju fram vindur. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert