„Hver fruma í sér hefði öskrað að þetta væri rangt“

Árni H. Kristjánsson sagnfræðingur segir eina mikilvægustu spurninguna í tengslum við rannsókn á vöggustofum Reykjavíkurborgar vera: Hvers vegna starfshættir sem stönguðust á við fyrirliggjandi rannsóknir, heilbrigða skynsemi og mannlegt eðli hafi fengið að viðgangast jafn lengi og raun ber vitni. 

Árni og Viðar Eggertsson leikstjóri eru gestir Dagmála í dag þar sem þeir ræddu um starfsemina sem fór fram á Vöggustofunni að Hlíðarenda og Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins sem reknar voru í borginni á síðustu öld.

„Konurnar [sem unnu á vöggustofunum], eins og ein orðaði það, sögðu að hver fruma í sér hefði öskrað að þetta væri rangt, það er að segja að mega ekki sinna grátandi barni og hundsa bara barnið algjörlega. Þannig að þau eiginlega bara svona dofnuðu og það hálf slokknaði á þeim,“ segir Árni. 

Hann segir algengt að börn sem hafi verið á vöggustofum hafi verið eftir á í bæði líkamlegum og andlegum þroska, enda hafi þau fengið litla sem enga örvun á þeim tíma sem dvöl þeirra stóð. 

Þá telur hann svarið við spurningu sinni líklega felast í stéttskiptingu samfélagsins og að ómannúðlega starfsemin hafi fengið að viðgangast þar sem að þarna hafi verið um að ræða börn fátækra mæðra og foreldra.

Viðar segir stéttskiptingu hafa verið ríka í borginni á þessum árum og að það hafi verið hluti af einangrunarstefnu vöggustofanna að koma fram við foreldrana eins og þeir væru óæðri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert