Krefst skýringa á atburðarásinni

Sigmar Guðmundsson á Alþingi.
Sigmar Guðmundsson á Alþingi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, krafðist á Alþingi frekari útskýringa á því hvaða ummæli Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra lét falla á Búnaðarþingi, hver aðdragandinn var og á hverju hann hefur nákvæmlega beðist afsökunar.

Aðeins þannig geti Alþingi og ríkisstjórnin sent skýr skilaboð út í samfélagið til þeirra „sem eiga að búa við þau sjálfsögðu mannréttindi að húðlitur þeirra skiptir ekki máli“.

Sigmar sagði jákvætt að Sigurður Ingi hafi beðist afsökunar á ummælum sínum í garð framkvæmdastjóra Bændasamtaka Íslands í gær, þótt vissulega hafi fjórir dagar verið liðnir og að pólitískur aðstoðarmaður hans hafi í millitíðinni fullyrt að ummælin hafi aldrei fallið.

„Því miður var afsökunarbeiðni formanns Framsóknarflokksins og innviðaráðherra ekki nema nokkurra klukkustunda gömul þegar aðstoðarmaðurinn svaraði aftur fjölmiðlum með þeim orðum að hún hefði í sínu fyrra svari bara lýst því sem hún heyrði og sá þetta kvöld, sem var að ráðherra hafi ekki vísað til húðlits heldur bara til þess að þolandinn væri sjálfstæðismaður. Málið væri algjört bull,“ sagði Sigmar, sem taldi rétt að staldra við þetta.

„Við erum í þeirri darpulegu stöðu að ráðherra baðst afsökunar á meiðandi ummælum sem pólitískur aðstoðarmaður hans og ráðgjafi, sem segist hafa heyrt og séð atburðarásina, fullyrðir ítrekað að hafi aldrei fallið,“ sagði hann og krafðist skýringa á þessu misræmi.

Undir lok ræðu sinnar bætti hann við: „Þetta er óþægileg umræða en hún verður að eiga sér stað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert