Mjög döpur yfir lýsingu Vigdísar

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Niðrandi ummæli Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra um Vigdísi Häsler, framkvæmdastjóra Bændasamtaka Íslands, voru ekki rædd á ríkisstjórnarfundi í morgun.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist hafa farið yfir málið með Sigurði Inga í gær, en hún svaraði einnig spurningum vegna þess í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi.

„Ég var mjög döpur að lesa stöðuuppfærslu Vigdísar Häsler þar sem hún vitnar til þessara ummæla án þess kannski að segja nákvæmlega hver þau voru en gefur til kynna að þau hafi snúist um kynþátt og kyn,“ sagði Katrín við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi.

Spurð hvort henni finnst afsökunarbeiðnin duga til sagði hún:

„Mér finnst mikilvægt að taka hana til greina en um leið er ég mjög döpur yfir þessari lýsingu sem birtist hjá framkvæmdastjóra Bændasamtakanna.“

Krafist hefur verið afsagnar Sigurðar Inga. Hvað finnst þér um það?

„Þetta hefur ekki verið rætt sérstaklega á vettvangi minnar hreyfingar. Ég veit ekki hver umræðan er hjá hinum stjórnarflokkunum,“ svaraði Katrín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert