Óviðurkvæmilegt orðbragð

Sigurður Ingi Jóhannsson við setningu Búnaðarþings, en óviðurkvæmilegar athugasemdir hans …
Sigurður Ingi Jóhannsson við setningu Búnaðarþings, en óviðurkvæmilegar athugasemdir hans um eða við framkvæmdastjóra Bændasamtakanna hafa uppskortið mikla gagnrýni og afsökunarbeiðni ráðherrans mbl.is/Árni Sæberg

Það áttu tæplegast margir von á því þegar Búnaðarþing hófst undir liðna helgi að þaðan myndi mest bera á fréttum af köpuryrðum forystu Framsóknar í garð forystu Bændasamtakanna.

Sú var nú samt sem áður raunin. Fyrst af óblíðum móttökum sem Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtakanna, fékk hjá Lilju Alfreðsdóttur, varaformanni Framsóknarflokksins og menningar- og viðskiptaráðherra, þegar hann kom á fimmtudagskvöld til móttöku flokksins vegna Búnaðarþingsins og tvennum sögum fer af, en síðan vegna orða sem Sigurður Ingi Jóhannesson, formaður flokksins og innviðaráðherra, lét falla við sama tækifæri í garð Vigdísar Häsler, framkvæmdastjóra Bændasamtakanna.

Þau orð hafa raunar ekki verið höfð nákvæmlega eftir, en af yfirlýsingu Vigdísar í gær er ljóst að þau lutu að uppruna hennar og litarafti.

Sigurður Ingi birti í kjölfarið yfirlýsingu þar sem hann baðst afsökunar á „óviðurkvæmilegum orðum“ sínum og rengdi frásögn hennar ekki.

Aðstoðarmaður rengir frásögn

Fjölmiðlar höfðu fengið pata af þessum orðum um helgina og leitað staðfestingar og svara um þau, en Sigurður Ingi gaf ekki færi á sér. Hins vegar þvertók Ingveldur Sæmundsdóttir, aðstoðarmaður hans, fyrir við það að ráðherrann hefði látið nokkur orð falla blendin kynþáttafordómum. „Þetta er algjört bull,“ var eftir henni haft í DV og kvaðst hún hafa verið allsgáð og við hlið Sigurðar Inga, en hann hafi gert athugasemd við að Vigdís væri sjálfstæðismaður.

Þau orð virðast raunar hafa orðið kveikjan að yfirlýsingu Vigdísar, því hún hafði ekki átt frumkvæði að umræðu um atburðinn og svaraði ekki fyrirspurnum um hann. Í yfirlýsingunni sagði hún skýringarnar rangar og að myndir sýndu að aðstoðarmaðurinn hafi ekki verið hlið ráðherrans. Orð Sigurðar Inga hafi verið afar særandi, en rangfærslur um atburðinn eftir á væru það einnig.

Umræður á Alþingi

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var spurð út í málið í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í gær, en hún minnti á að Sigurður Ingi hefði beðist afsökunar á ummælum sínum. „Sú afsökunarbeiðni endurspeglar þá afstöðu hans að ummælin hafi verið röng og þau hefðu ekki átt að falla, enda óásættanleg með öllu,“ sagði Katrín. Hún sagði að í íslensku samfélagi bæri öllum virðing í hvívetna. „Á ráðherrum í ríkisstjórn hvílir ríkari krafa og undir henni eigum við ráðherrar að standa,“ sagði Katrín og bætti við að taka yrði afsökunarbeiðnir til greina.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert