Sögðu afsökunarbeiðni ekki duga til

Sigurður Ingi Jóhannsson og Katrín Jakobsdóttir á Alþingi í febrúar …
Sigurður Ingi Jóhannsson og Katrín Jakobsdóttir á Alþingi í febrúar síðastliðnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu Sigurð Inga Jóhannsson innviðaráðherra harðlega á Alþingi og sögðu hann hafa með rasískum ummælum í garð framkvæmdastjóra Bændasamtaka Íslands brotið lög sem Alþingi setti árið 2018 um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

Lögin hafi verið sett að frumvæði Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, sem styðji þó enn við bakið á Sigurði Inga.  

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, sagði augljóst að innviðaráðherra hafi gerst brotlegur við lögin. Nefndi hún að samkvæmt lögunum sé öll mismunun á öllum sviðum samfélagsins bönnuð, þar á meðal áreitni.

Dagbjört Hákonardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði hversdagslegan rasisma og kvenfyrirlitningu lifa góðu lífi innan ríkisstjórnarinnar. Minntist hún á orð forsætisráðherra um að mál Sigurðar Inga hafi hvorki verið rædd á ríkisstjórnarfundi né á vettvangi Vinstri grænna.

„Ég neita fyrir mitt leyti að sætta mig við að hversdagslegur rasismi og kvenfyrirlitning sé gott sem samþykkt í ríkisstjórn íslensku íhaldsflokkanna,“ sagði hún og kvaðst ekki flokka hegðun Sigurðar Inga undir mannleg mistök eins og haldið hefur verið fram. Hann hafi ekki ávarpað Vigdísi Häsler, framkvæmdastjóra Bændasamtakanna, með nafni eins og henni sé sæmandi heldur hafi hann kosið að „smætta hana niður á grundvelli kyns og kynþáttar“. Ekki sé nóg fyrir hann að biðjast afsökunar heldur verði hann að segja af sér.

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, sagðist fullviss um að ef um nágrannaþjóð væri að ræða væri ráðherrann núna að segja af sér. „Þetta voru rasísk ummæli,“ sagði hún og nefndi að þau væru fyrir neðan virðingu þingsins og ráðherra.

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata.
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Arnþór

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, furðaði sig á ummælum forsætisráðherra um að þjóðin eigi að taka afsökunarbeiðni Sigurðar Inga og sagði hana vera hvíta valdakonu í forréttindastöðu. „Jafnvel þó þjóðin öll fyrirgæfi innviðaráðherra getum við ekki litið framhjá pínlegri fáfræðinni sem þau afhjúpa á heimsvísu,“ sagði Andrés Ingi um ummæli hans.

„Það ætti öllum að vera ljóst að maðurinn er ekki starfi sínu vaxinn því svona fáfræði verður ekki bara leiðrétt með afsökunarbeiðni, sama hversu einlæg hún kann að sýnast.“  Bætti hann við að stjórnarliðar verði að sýna með skýrum hætti að rasískur hugsunarháttur sé ekki liðinn í ríkisstjórn Íslands.

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata.
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ráðherra gefi yfirlýsingu

Sumir þingmenn óskuðu eftir því að forseti Alþingis nýtti sér 61. grein þingskaparlaga sem heimila honum að leyfa ráðherra að stíga fram og gefa yfirlýsingu. Á meðal þeirra var Logi Einarsson, þformaður Samfylkingarinnar. Hann nefndi að allsherjar- og menntamálanefnd væri þessa dagana að fjalla um breytingar á lögum um meðferð óháð kynferði og þjóðerni. Borðleggjandi væri í annarri umræðu um frumvarpið að fjalla um með hvaða hætti þingmenn sjálfir ætli að virða lögin sem þeir séu sjálfir að setja sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert