Skýrsla SAMAK, samstarfsvettvangs jafnaðarmannaflokka og alþýðusambanda á Norðurlöndum var kynnt á dögunum og samkvæmt henni vinna íslenskar konur langmest í ótryggum hlutastörfum í umönnunar- og velferðargeiranum í samanburði við konur á hinum Norðurlöndunum og hefur sú tala farið hækkandi frá árinu 2010.
Umönnunarbyrði íslenskra kvenna hærri
Íslenski hluti skýrslunnar var unninn af Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, hagfræðingi hjá BSRB og Arnaldi Sölva Kristjánssyni, hagfræðingi hjá ASÍ og þau skýra þennan mun meðal annars með því að umönnunarbyrði íslenskra kvenna er hærri en í öðrum löndum Norðurlanda, og er þar átt við bæði umönnun barna og einnig eldri foreldra, sem hefur aukist mikið með hækkandi aldri þjóðarinnar.
„Við skerum okkur ekkert frá Norðurlöndunum með hlutfall hlutastarfa nema í heilbrigðis- og umönnunargeiranum,“ segir Arnaldur Sölvi Kristjánsson hagfræðingur og bætir við að undanfarin tíu ár hafi sérstaklega tala íslenskra kvenna í þessum umsjónarstörfum í heilbrigðisgeiranum hækkað á meðan hún hafi lækkað mikið á hinum Norðurlöndunum, nema hjá Finnlandi, en þar hafi hún reyndar verið langlægst.
Mikill kynjamunur
60% kvenna sem vinnur í heilbrigðis- og umönnunarþjónustu er í hlutastarfi, á meðan karlar í sama geira eru á milli 20-30% þeirra sem vinna í hlutastarfi.
„Við erum með langmesta mun milli kynja samanborið við Norðurlöndin og það geta verið margar ástæður fyrir því.“ Hann segir að í skýrslunni sé gert ráð fyrir að best sé að vera í fullu starfi, bæði fyrir starfsfólkið, en ekki síður fyrir notendur þjónustunnar.
„Rannsóknir frá hinum Norðurlöndunum benda eindregið til þess að lífsgæði aukist með fullu starfi, betri tekjum og lífeyrisréttindum fyrir starfsfólkið.“ Hann bætir við að vissulega séu einhverjir sem kjósi hlutastörf, en samkvæmt rannsóknum Norðurlandanna eru það oft aðrir þættir sem ráði því.
„Ef það er erfitt að fá leikskólapláss, getur hlutastarf verið eini kosturinn og eins sýna rannsóknirnar að líkamlega erfið störf og aðstæður beini fólki frekar í hlutastörfin.“ Hann bendir einnig á að ánægja notenda þjónustunnar séu miklu meiri þegar fólk er í fullum störfum. „Þá er yfirleitt minni starfsmannavelta og það skiptir svo miklu máli að þekkja vel starfsfólkið.“
Hagsmunaárekstrar í einkarekstri
Í skýrslunni er lagt til að verkalýðshreyfingarnar setji í forgang möguleika á fastráðningum og fullum störfum í þessum geira og að tryggja þurfi að opinber fjármögnun heilbrigðis- og umönnunarþjónustu sé fullnægjandi. Einnig er talað um að takmarka eignarhald einkaaðila í geiranum. „Ástæðan fyrir því er að vegna mikillar áherslu á kostnaðarhagkvæmni einkageirans gæti það bitnað á gæðum þjónustunnar og hugsanlega leitt til ofmeðferða þar sem þeirra er ekki þörf vegna hagnaðarsjónarmiða. Svo teljum við líka að það geti dregið úr starfskjörum starfsfólksins.“
Staðið í stafni í baráttunni gegn Covid 19
Í yfirlýsingu forystufólks flokkanna og alþýðusambandanna, sem Logi Már Einarsson og Drífa Snædal skrifuðu undir fyrir hönd Íslands, segir m.a. að Verkalýðshreyfingin á Norðurlöndum vilji tryggja að föst, full störf verði venjan í heilbrigðis- og umönnunargeiranum á Norðurlöndum. „Baráttan fyrir fullri vinnu hefur jafnréttis- og stéttavinkil sem er í forgrunni hjá verkalýðshreyfingunni. Konur, innflytjendur og fólk með lítla eða enga formlega menntun eru þeir hópar sem helst verða fyrir barðinu á skammtímaráðningum og óöruggri vinnu í heilbrigðis- og umönnunarstarþjónustu. Í bráðum tvö ár hefur starfsfólk innan heilbrigðis- og umönnunarþjónustunnar staðið í stafni í baráttunni gegn kórónavírusnum. Kórónanefndir á vegum sænska og norska ríkisins benda á að hlutastörf hafa verið hindrun í vegi virkra sóttvarna og skilvirks skipulags. Augljós þörf er á að styrkja viðbúnað til frambúðar en Norðurlönd standa ekki síður frammi fyrir því að aldraðir verða sífellt stærri hluti íbúa. Sú staðreynd kallar á fleiri hendur í þessi störf. Þann vanda þarf að leysa með fleiri ráðningum og halda á sama tíma í þá sem þegar eru í vinnu. Það er mikilvægt að við lýði sé vinnuskipulag sem tryggir að sá sem þegar er í vinnu geti unnið sinn starfsaldur á enda og einnig er nauðsynlegt að vinna skipulega að því að auka starfshlutfall þeirra sem nú eru í hlutastörfum.“