Áfram Vínbúð í miðborginni

Íbúar á miðborgarsvæðinu þurfa ekki að örvænta, því áfram verður …
Íbúar á miðborgarsvæðinu þurfa ekki að örvænta, því áfram verður Vínbúð í miðborginni. mbl.is/sisi

Áfram verður Vínbúð ÁTVR í miðborg Reykjavíkur, þrátt fyrir að opnuð verði Vínbúð á Grandanum. Ekki stendur til að loka Vínbúðinni í Austurstræti, en verði það gert verður opnuð verslun á öðrum stað í miðborginni, jafnvel tvær minni verslanir.

Þetta staðfestir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í færslu á Twitter. Samningur hafi náðst við ÁTVR um málið.

„Á fundi með forstjóra ÁTVR handsöluðum við að búðin í Austurstræti myndi ekki loka þrátt fyrir að samningar næðust á Grandanum. Upplýsti hann að ef Austurstrætinu yrði lokað yrði auglýst eftir 1-2 vel staðsettum en minni verslunum á miðborgarsvæðinu til að koma í staðinn,“ skrifaði borgarstjórinn á Twitter.

Vísaði Dagur til þess að töluverð umræða hefði skapast eftir að ÁTVR auglýsti eftir nýju húsnæði á miðborgarsvæðinu og kynnt var að staðsetning á Grandanum væri metin álitlegust út frá gefnum forsendum, m.a. um stóra verslun. Fjölmargir hafi hins vegar bent á að það þyrfti að vera áfram verslun í miðborginni.

„Þetta finnst mér góð niðurstaða og vel hægt að sjá fyrir sér tvær minni verslanir, önnur á svæðinu Lækjartorg/Hafnartorg og hin á Hlemmsvæðinu sem myndi koma til móts við þann stóra fjölda fólks sem býr og vinnur á þessu svæði eða er þar sem ferðamenn. Flott, ÁTVR,“ skrifar Dagur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert