Faðirinn enn ekki höfðað innsetningarmál

Drengirnir eru nú hjá móður sinni í Reykjavík.
Drengirnir eru nú hjá móður sinni í Reykjavík. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Faðir drengjanna þriggja sem móðir þeirra, Edda Björk Arnardóttir, nam á brott frá Noregi í síðustu viku, hefur enn ekki höfðað innsetningarmál til að reyna að fá drengina aftur til Noregs. Þetta staðfestir Hildur Sólveig Pétursdóttir, lögmaður Eddu. Hún segir að drengjunum líði vel á Íslandi og séu alsælir.

Í samtali við mbl.is í síðustu viku sagði Leif­ur Run­ólfs­son, lögmaður föður drengj­anna, að væntanlega yrði höfðað inn­setn­ing­ar­mál við héraðsdóm hér á landi nema móðir af­henti börn­in. „Ef hún af­hend­ir ekki börn­in eða börn­in fara ekki heim til föður, þá verður að sjálf­sögðu séð til þess,“ sagði Leif­ur í sam­tali við mbl.is. Faðirinn fer einn með forsjá drengjanna þriggja og hafa þeir lögheimili hjá honum. Tvær alsystur drengjanna hafa hins vegar lögheimili hjá Eddu hér á landi, en foreldrarnir fara sameiginlega með forsjá þeirra.

Taldi velferð drengjanna ógnað 

Edda ræddi við mbl.is í síðustu viku og greindi frá ástæðum þess að hún greip til þess örþrifaráðs að sækja syni sína þrjá til Noregs og leigja einkaflugvél til að fljúga með þá til Íslands. Hún taldi að velferð drengjanna væri ógnað og var orðin úrkula vonar um að dóm­stóll í Nor­egi tæki mark á þeim gögn­um sem hún hefði lagt fram.

Þá sagði dóttir Eddu frá því í viðtali við Eddu Falak í þættinum Eigin Konur, að hún hefði orðið fyrir ofbeldi af hendi föður síns. Norskur sálfræðingur sem hún var í viðtölum hjá hafi hins vegar ekki trúað henni.

Við treystum réttarríki beggja samfélaganna“ 

Faðir barnanna hefur ekki viljað tjá sig um málið við fjölmiðla en í gær birtist yfirlýsing frá lögmanni hans á vef Fréttablaðsins. Sagði hann að faðirinn hefði forðast að segja sína hlið á opinberum vettvangi af tillitsemi við börnin. Þá sagði hann að norsk yfirvöld hefðu úrskurðað að lokinni vandlegri rannsókn að ásakanir dótturinnar í garð föðurins væru tilefnislausar.

Lögmaðurinn sendi mbl.is einnig stutta yfirlýsingu þar sem segir að aðalatriði málsins sé að  bæði íslenskir og norskir dómstólar hafi úrskurðað í því og að faðirinn hafi í einu og öllu farið eftir þeirri niðurstöðu.

„Svona deilur eru alltaf viðkvæmar þar sem börn eiga í hlut og þess vegna höfum við forðast það til þessa að fjalla um sjónarmið og aðstæður föðurins, hvað þá barnanna, í fjölmiðlum. Við treystum réttarríki beggja samfélaganna sem koma að málinu og munum hér eftir sem hingað til hlíta niðurstöðum þeirra,“ segir í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert