Aðsókn í athvarf samtakanna „Flottafólks“ í Guðrúnartúni 8 í Reykjavík náði nýjum hæðum í fyrrakvöld, að sögn Sveins Rúnars Sigurðssonar, læknis, tónlistarmanns og athafnamanns, sem hefur haft forgöngu um aðstoð við flóttamennina frá Úkraínu.
„Þetta hefur verið að aukast og í gær [fyrradag] komu um 200 manns í mat og til að sækja sér föt og afþreyingu,“ sagði Sveinn í gær. Athvarfið í Guðrúnartúni er opið milli klukkan 18.00 og 20.00 frá mánudegi til og með fimmtudags. Hópurinn er að stærstum hluta konur og börn, en stöku eiginmenn einnig. Fólkið er á öllum aldri, börn, unglingar, foreldrar og afar og ömmur.
Foreldrar og börn hafa haft athvarf á neðri hæð Fíladelfíu í Hátúni 2. Það er opið frá klukkan 10.00 til 15.00 frá mánudegi til og með föstudags. „Þar er framreiddur morgunverður og hádegismatur. Við höfum notið stuðnings íslenskra fyrirtækja með mat og drykk og fólk fær nóg að borða. Einnig er þar tónlistarstofa, afþreying og ferðatölvur fyrir foreldra til þess að dreifa huganum á netinu. Þessi aðstaða er líka að sprengja utan af sér,“ segir Sveinn. Verið er að skoða möguleika á að opna fleiri úrræði, t.d. í Hafnarfirði eða annars staðar í Reykjavík. „Mér skilst að Reykjavíkurborg verði tilbúin með sín fínu úrræði í kringum páskana. Þá getum við mögulega lokað þessu eða borgin komið að því með beinum hætti.“
Sjálfboðaliðar annast rekstur athvarfanna. Þeirra á meðal er faglært fólk sem flúði hingað frá Úkraínu og eins íslenskt fagfólk sem hefur lagt lið við barnastarfið.
Fram kemur á heimasíðunni helpukraine.is og í facebookhópnum Ísland fyrir Úkraínu að ofgnótt hafi borist af notuðum fötum. Börn sem koma fá nýjan vetrargalla og skó hjá hjálparstarfinu. Enn er þörf fyrir ónotuð föt, ýmsar hreinlætis- og snyrtivörur, eins bleyjur og blautklúta svo nokkuð sé nefnt.
„Maður er hrærður yfir aðkomu landsmanna og íslenskra fyrirtækja að þessu hjálparstarfi. Það er sömu sögu að segja um allt land. Gott dæmi er hvernig Vesturbæingar tóku við flóttafólkinu sem kom á Hótel Sögu. Eins hefur fólk hlaupið undir bagga þar sem hefur vantað mat. Þessi velvild er með ólíkindum. Ég er stoltur af því hvað er mikill samtakamáttur í samfélaginu varðandi það að hlúa að þessu fólki. Ég vil koma á framfæri þökkum til allra þeirra einstaklinga og fyrirtækja sem hafa sinnt þessu,“ segir Sveinn.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.