Kapall með húsnæði ráðuneyta á næstunni

Breytingar eru fram undan á húsinu, sem gengur enn eina …
Breytingar eru fram undan á húsinu, sem gengur enn eina ferðina í enurnýjun lífdaga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Húsið við Skúlagötu 4 verður tæmt á næstunni og starfsemi ráðuneyta sem þar eru á efri hæðum verður flutt annað. Matvælaráðuneytið flytur tímabundið í nýtt húsnæði, en reiknað er með að samningar um það verði undirritaðir í vikunni. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er um að ræða húsnæði við Borgartún 26.

Ráðgert er að menningar- og viðskiptaráðuneyti flytji í Sölvhólsgötu 7, þar sem dómsmálaráðuneytið er nú til húsa. Síðarnefnda ráðuneytið flytji hins vegar í Borgartún 26. Viðamiklum endurbótum sem staðið hafa yfir við Skúlagötu 4 verður hraðað.

Þetta er aðeins hluti af þeim kapli sem er í gangi með húsnæði ráðuneyta. Í síðustu viku var greint frá því að félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið flytja á næstunni í Síðumúla 24, en þar er um að ræða tímabundið leiguhúsnæði. Húsnæðið við Síðumúla er 3.100 fermetrar að stærð og nýja húsnæðið við Borgartún er svipað að stærð.

Í Skógarhlíð 6 hafa ráðuneytin tvö deilt húsnæði frá því í febrúar 2017 en þar komu fyrr í vetur upp rakaskemmdir og mygla. Fyrirhugað er að ráðuneytin fái framtíðaraðstöðu á Skúlagötu 4. Þá hefur komið fram áhugi ríkisins á viðræðum um kaup af Landsbankanum á norðurhúsinu við Austurbakka sem er í byggingu.

Sveigjanleiki að leiðarljósi

Húsið við Skúlagötu 4 er sex hæðir, á jarðhæð er samnýtanleg fundaraðstaða og anddyri hússins og á 2.-6. hæð verða skrifstofuhæðir fyrir ráðuneyti. Í byrjun árs var ákveðið að 4.-6. hæð yrðu endurnýjaðar samhliða framkvæmdum á 2. og 3. hæð. Áætlað er að útboð framkvæmda verði á vormánuðum.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert