Alþjóðlega Reykjavíkurskákmótið var sett í dag í Hörpu og var margt um manninn. Alls taka 270 keppendur þátt í mótinu frá 45 löndum, þar af 24 stórmeistarar. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri setti mótið og lék fyrsta leikinn fyrir stigahæsta mann mótsins, Pouya Idani frá Íran (2638).
Bandaríski stórmeistarinn Hans Niemann er næststigahæstur keppanda ásamt Gukesh D. frá Indlandi (2637), en Indverjar eru í fimm af sjö efstu sætum mótsins og eru líklegir til stórræða. Yngsti stórmeistara allra tíma, bandaríska undrabarnið, Mishra Abhimanyu er meðal keppenda en hann er aðeins 13 ára.
Stigahæsti skákmaður Íslendinga, Hjörvar Steinn Grétarsson (2542) tekur þátt og íslensku stórmeistararnir Héðinn Steingrímsson (2538), Jóhann Hjartarson (2465), Þröstur Þórhallsson (2422) og Bragi Þorfinnsson (2381), en alls taka um 70 Íslendingar þátt í mótinu.
Stórmeistari kvenna, Lenka Ptácníková (2186) fer fremst íslenskra skákkvenna, en næstar eru Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir (1981) og Jóhanna Björg Jóhannsdóttir (1973), en alls taka níu íslenskar skákkonur þátt í mótinu.
Skákkonur eru áberandi á mótinu og Tania Sachdev frá Indlandi 2392), Sukandar Irine Kharisma frá Indónesíu (2386) og frá Úkraínu eru landsliðskonurnar Evgenía Doluhanóva (2280) og Mariia Berdnyk (2287). Dóttir Piu Cramling sem gerði garðinn frægan fyrir löngu, Anna Cramling, frá Svíþjóð (2057) er einnig meðal keppenda.
Umferðir mótsins hefjast kl. 15 í Hörpu og hægt er að fylgjast með skákskýringum frá kl. 17.
Óvænt úrslit í dag voru þau að Alexander Oliver Mai gerði jafntefli við undrabarnið, bandaríska stórmeistarann Mishra Abhimanyu, og einnig gerði Birkir Ísak Jóhannsson (2117) jafntefli við gömlu kempuna Oleg Romanishin (2415) frá Úkraínu. Einnig tapaði Þröstur Þórhallsson fyrir mun stigalægri manni í dag, Rafael De Koninck (2119) frá Belgíu.
Hér er hægt að sjá niðurstöður 1.umferðar í heild.