Óheimilt er að skerða sérstaka framfærsluuppbót á þeim forsendum að bótaþegi hafi búið hluta starfsævi sinnar erlendis. Þetta er niðurstaða Hæstaréttar í máli öryrkja gegn Tryggingastofnun, en dómur var kveðinn upp klukkan tvö í dag. Málið gæti kostað ríkið nokkra milljarða og svo í framhaldinu árlega hundruð milljóna.
Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur sem felldi í síðasta mánuði dóm í máli konu gegn Tryggingastofnun ríkisins vegna þeirrar framkvæmdar stofnunarinnar.
Konan hefur verið metin með hámarksörorku (75%) frá 1. mars 2011. Hún er íslenskur ríkisborgari, fædd og uppalin hér á landi en bjó tímabundið í Danmörku. Í samræmi við lög um almannatryggingar á fólk rétt á fullum bótum hafi það búið 40 ár á Íslandi milli 16 og 67 ára aldurs, en hafi það búið styttra fær það bætur í hlutfalli við búsetutímann. Fær konan því 78,5% af fullum örorkulífeyri á Íslandi.
Dómurinn verður birtur á vef Hæstaréttar síðar í dag.
Í málskotsbeiðninni kemur fram:
„Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða málsins sé fordæmisgefandi fyrir öll önnur sambærileg tilvik þar sem einstaklingur hefur búið í öðru landi en nýtur ekki neinna eða lágra lífeyrisgreiðslna þaðan. Feli dómur Landsréttar í sér endanlega niðurstöðu um ágreiningsefnið gæti hann þurft að greiða allt að fjóra milljarða króna til um það bil tvö til þrjú þúsund einstaklinga auk þess sem árlegar greiðslur myndu hækka um sex til sjö hundruð milljónir króna.“