Sannkölluð skíðaveisla á Siglufirði

Sannkölluð skíðaveisla mun fara fram á Siglufirði um helgina.
Sannkölluð skíðaveisla mun fara fram á Siglufirði um helgina. Ljósmynd/Víðir B

Sigló Freeride Weekend verður haldin hátíðleg í annað sinn á Siglufirði um helgina. Þar mun skíða- og snjóbrettafólk á öllum aldri og getustigum koma saman, ýmist til að renna sér til gamans eða keppa í utanbrautarrennsli á skíðasvæðinu í Skarðsdal.

Hátíðin var haldin í fyrsta sinn árið 2019 og þá sem partur af alþjóðlegu mótaröðinni Freeride World Tour. Þótti hátíðin heppnast afar vel og stóð það til að gera hana að árlegum viðburði. Vegna kórónuveirufaraldursins hefur þó ekki verið hægt að halda hátíðina aftur fyrr en nú.

Þurftu að sníða sér stakk eftir vexti

„Við vorum búin að skipuleggja hátíðina fyrir árið 2020 en svo þegar kórónuveirufaraldurinn skall á þurftum við að hætta við hana á síðustu stundu. Það var svolítið svekkjandi og þetta er búið að vera svolítil bið en við erum hrikalega spennt að byrja aftur núna,“ segir Magnús Arturo Batista, einn skipuleggjenda hátíðarinnar í samtali við mbl.is.

Áhrifa kórónuveirunnar gætir þó enn víða um heiminn og hafa skipuleggjendur alþjóðlegra viðburða þurft að sníða sér stakk eftir vexti, að sögn Magnúsar. Því verði Sigló Freeride hátíðin í ár haldin með aðeins öðruvísi sniði heldur en árið 2019 en verði þó alls ekki síðri.

„Þar sem öll skipulagning sem tengist ferðum á milli landa er enn svolítið flókin eftir Covid verður hátíðin í ár ekki tengd Freeride World Tour heldur verður hún bara lókal viðburður. Það verður samt sami rammi utan um hana og sama hugsun á bakvið hana eins og alþjóðlega mótarröðin er búin að gefa fordæmi fyrir og stefnum við ennþá á að vera partur af þeirri mótarröð á næsta ári.“

Sólin lék við gesti Sigló Freeride árið 2019.
Sólin lék við gesti Sigló Freeride árið 2019. Ljósmynd/Local Icelander

Koma tvíelfd til baka eftir faraldurinn

Inntur eftir því segir Magnús skipulagningu hátíðarinnar í ár hafa gengið vel enda búi teymið hans að góðri reynslu af því að halda fyrstu hátíðina 2019 og skipuleggja hátíðina sem átti að fara fram árið 2020.

„Þetta hefur gengið rosa vel því allir í teyminu eru svo staðráðnir í því að láta þennan viðburð verða að veruleika aftur svo að fólk í utanbrautarsenunni geti hist, kynnst betur og gert sér glaðan dag saman.“

Það er svo einmitt það sem Magnús segist hafa lært mest af því að halda og skipuleggja fyrri hátíðir, þ.e. mikilvægi þess að hafa gott teymi, auk þess að vera vel undirbúinn.

„Það tekur í raun ótrúlega mikinn tíma að skipuleggja svona viðburð og þá skiptir miklu máli að hafa gott teymi sem vinnur vel saman. Við viljum að fólk komi á hátíðina og hugsi svo: Vá hvað þetta var skemmtilegt, þegar það fer aftur heim. Ég held að undirbúningur skipti sköpum hvað það varðar.“

Allir eru velkomnir á Sigló Freeride óháð getustigi.
Allir eru velkomnir á Sigló Freeride óháð getustigi. Ljósmynd/Jónas Stefánsson

Byrjendur sem lengra komnir velkomnir

Spurður hvort hátíðin sé aðeins ætluð þeim sem séu mjög færir á annað hvort skíðum eða snjóbretti svarar Magnús neitandi. Þvert á móti séu allir velkomnir, óháð getu.

„Það eru allir velkomnir, hvort sem þeir eru heima- eða utanbæjarmenn, reyndir eða óreyndir. Fólk getur annað hvort keypt sér miða og þannig verið partur af hátíðinni eða bara orðið vitni að henni úr skíðabrekkunni,“ segir Magnús.

„Ég mæli eindregið með því að þeir mæti sem hafa gaman af því renna sér utan brautar á skemmtilegu fjallasvæði eða vilja bara eiga geggjaða helgi. Það verða tjöld með söluvarningi, sérstakt svæði með tónlist og veitingum uppi í fjalli svo ég held það gæti bara verið skemmtilegt fyrir hinn almenna skíðamann að mæta og sjá hvað er að frétta,“ bætir hann við.

Nánari upplýsingar um dagskrá hátíðarinnar er að finna á vef Sigló Freeride en þar er einnig hægt að kaupa miða á hátíðina sem og skrá sig í keppnina. Vert er þó að taka fram að lokað verður fyrir skráningu í keppnina á morgun, fimmtudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert