Segir ríkið hafa níðst á þeim verst stöddu

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands. Ljósmynd/ÖBÍ

 „Ríkið hefur níðst á þeim sem minnst hafa og verst standa,“ segir Þuríður Harpa Sig­urðardótt­ir, formaður Öryrkja­banda­lags­ Íslands.

Í dag, 6. apríl, féll dómur í Hæstarétti gegn Tryggingastofnun ríkisins, þar sem kemur fram að óheimilt er að skerða framfærsluuppbót á þeim forsendum að bótaþegi hafi búið hluta starfsævi sinnar erlendis.

„Við erum mjög ánægð með þessa niðurstöðu,“ segir Þuríður í samtali við mbl.is.

Málið gegn TR var fyrst höfðað af konu árið 2016 vegna skerðingar framfærsluuppbótar á árunum 2011-2015, því hún bjó hluta ævi sinnar í Danmörku. Konan lést fyrir skömmu og lifði því ekki að sjá dóminn felldan í Hæstarétti.

Ríkið skuldi tvö til þrjú þúsund manns

„Þessi ólöglega framkvæmd hefur verið í gangi síðan árið 2009,“ segir Þuríður og segir málið gefa skýrt fordæmi.

Hún telur mögulegt að tvö til þrjú þúsund einstaklingar eigi rétt á endurgreiðslu frá Tryggingastofnun.

„Ég skora á ríkistjórnina að skýla sér ekki á bak við einhverjar fyrningareglur. Þau eiga að taka ábyrgð á þessum verknaði og gera að fullu upp við þá sem hafa síðan 2009 þurft að draga fram lífið á upphæðum sem ná ekki einu sinni lágmarks framfærsluviðmiðum, sem er lögbundin,“ segir Þuríður.

Tryggingastofnun ríkisins tapaði í Hæstarétti í dag.
Tryggingastofnun ríkisins tapaði í Hæstarétti í dag. mbl.is/ÞÖK

Áralöng barátta á enda

Daníel Isebarn Ágústsson, lögmaður konunnar, er ánægður með dóm Hæstaréttar en segir í samtali við mbl.is að þetta hafi verið löng og ströng barátta.

„Skerðingarnar voru kærðar til úrskurðarnefndar velferðarmála, búið er að reka málið í gegnum Landsrétt, héraðsdóm og Hæstarétt og nú loksins liggur það fyrir að þetta var ólögmætt eins og Öryrkjabandalagið er búið að halda fram í um áratug,“ segir Daníel.

Öryrkjar undir fátæktarmörkum

„Sérstök framfærsluuppbót sem deilt var um í þessu máli er einungis ætluð fyrir þá sem eru í verstu stöðunni af öllum örorkulífeyrisþegum. Með þessari skerðingu var þessu fólki haldið í enn verri stöðu með því að skerða ólöglega þessa uppbót og þannig var fólki haldið langt undir fátæktarmörkum í mörg ár,“ segir Daníel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert