Sólveig verði að bera virðingu fyrir starfsfólkinu

Ólöf Helga fer úr embætti varaformanns og tekur aftur sæti …
Ólöf Helga fer úr embætti varaformanns og tekur aftur sæti sem ritari stjórnar Eflingar. Samsett mynd/mbl.is

Ólöf Helga Adolfsdóttir, fráfarandi varaformaður Eflingar, vonast til að ekki komi til átaka á skrifstofu félagsins þegar Sólveig Anna Jónsdóttir mætir aftur til starfa á mánudaginn, sem formaður Eflingar. Hún segir Sólveigu verða að bera virðingu fyrir starfsfólkinu og ekki láta sínar persónulegu skoðanir lita andrúmsloftið á vinnustaðnum.

Að sögn Ólafar er mikið álag á skrifstofu Eflingar núna eftir að yfir tugur einstaklinga sagði upp störfum, en hún gerir ráð fyrir að það verði eitt af fyrstu verkum nýrrar stjórnar auglýsa eftir starfsfólki.

Þá segir Ólöf mikilvægt að draga lærdóm af þeim mistökum sem voru gerð á vettvangi stjórnar þar sem eftirlitshlutverki var ekki sinnt þegar framkvæmdastjóri stofnaði til viðskipta við Sigur vefstofu ehf.

Hefðu átt að sinna eftirlitshlutverkinu betur

„Það sem ég tek úr þessu er að þetta er mikilvægt fyrir okkur í stjórninni sérstaklega að vita við þurfum að taka meiri ábyrgð og sinna okkar starfi betur. Það kom skýrt fram að við gerðum mistök og það er mikilvægur lærdómur sem við þurfum að draga af þessu. Ég vil ekki leggja mesta áherslu á það sem kom fram varðandi framkvæmdastjóra, þetta vorum við öll sem gerðum mistök og það er mikilvægt að læra af því og halda áfram,“ segir Ólöf.

Um er að ræða lögfræðiúttekt sem stjórn Eflingar lét gera á viðskiptum félagsins við Sigur vefstofu ehf. á árunum 2018 til 2021. Á föstudaginn birti stjórn Eflingar ályktun á heimasíðu félagsins vegna úttektarinnar þar sem fram kom að Viðar Þorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Eflingar, hefði ekki haft heimild stjórnar félagsins fyrir þeim viðskiptum sem hann stofnaði til við Sigur vefstofu, fyrir hönd félagsins. Hann hefði því farið gegn starfsskyldum sínum með alvarlegum hætti.

Þá kom fram í ályktunni að draga mætti mikilvægan lærdóm af málinu sem kalli á að komið verði á mun skýrara verklagi og reglum um verka­skipt­ingu stjórn­ar og fram­kvæmda­stjóra og hvernig heim­ild­ir fram­kvæmda­stjóra og annarra stjórn­enda á skrif­stofu fé­lags­ins séu af­markaðar.

„Við hefðum átt að sinna okkar eftirlitshlutverki betur þannig þetta er gott tækifæri fyrir okkur að læra af reynslunni og gera betur næst.“

Gerir ekki ráð fyrir breytingum fyrir stjórnarskiptin

Aðspurð segist Ólöf ekki gera ráð fyrir að farið verði í neina vinnu við að skýra verklag fyrir stjórnarskiptin, enda gefist varla tími til þess. Stjórnarskiptin fara fram næstkomandi föstudag, þann 8. apríl, en þá tekur Sólveig við sem formaður Eflingar. Agnieszka Ewa Ziólkowska, starfandi formaður, fer þá aftur í embætti varaformanns og Ólöf í embætti ritara.

„Það er svo stutt í stjórnarskiptin. Ég geri ráð fyrir að við setjumst yfir þetta og reynum að vera svolítið skýrari í því hvernig við störfum og séum ekki hikandi við að spyrja spurninga. Við höfum lært mikið á síðustu fimm mánuðum, það er alveg á hreinu,“ segir Ólöf og vísar þá til tímans frá því Sólveig sagði af sér formennsku í lok október á síðasta ári. Þá tók Agnieszka við sem formaður og Ólöf varaformaður. 

„Við látum þetta ganga“

Í febrúar og mars sögðu tíu einstaklingar upp störfum á skrifstofu Eflingar og þrír tímabundnir samningar voru ekki endurnýjaðir. Sé litið aftur til nóvembermánaðar hafa þó hátt í tuttugu starfsmenn sagt upp störfum á skrifstofunni eða farið í varanlegt veikindaleyfi. Ansi stórt skarð hefur því verið höggvið hópinn og mikil þekking horfið á braut, en á skrifstofunni starfa um 50 manns.

„Við látum þetta ganga. Við erum með frábært starfsfólk og höfum náð að halda starfseminni gangandi. Það er mikið að gera á orlofssviðinu hjá okkur núna, sumarhlutanir í gangi. Það er mikið álag en starfsfólkið okkar hefur staðið sig vel.“

Hún segir að það hljóti að verða eitt af fyrstu verkefnum nýrrar stjórnar að koma af stað ráðningum til að fylla í skörð þeirra sem horfið á braut.

Sagðist skilja að einhverjir óttuðust endurkomuna 

Trúnaðarmaður starfs­fólks Efl­ing­ar greindi frá því í viðtali við mbl.is í byrj­un fe­brú­ar að meiri­hluti starfs­fólks­ins á skrif­stof­unni óttaðist end­ur­komu Sól­veig­ar Önnu Jóns­dótt­ur sem for­manns fé­lags­ins. Fólk hafi upp­lifað kvíða og van­líðan ein­hverj­ir talið að þeim yrði ekki stætt í sínu starfi.

Sólveig sagði í viðtali við mbl.is eft­ir end­ur­kjörið í fe­brú­ar að hún skildi að þeir sem hefðu farið fram með gíf­ur­yrðum og gert aðför að mann­orði henn­ar óttuðust end­ur­komu henn­ar. Hún gæti ekki ímyndað sér að það fólk hefði áhuga á að starfa á sama vinnustað og hún.

Sólveig Anna Jónsdóttir tekur við sem formaður Eflingar á föstudag.
Sólveig Anna Jónsdóttir tekur við sem formaður Eflingar á föstudag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þá tókust Ólöf og Sólveig á í formannsslagnum og ýmislegt hefur verið sagt, bæði í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Sólveig hefur ítrekað haldið því fram að starfandi forysta Eflingar sé umboðslaus, en trúnaðarráð Eflingar ályktaði um að aðalfundi skyldi flýtt og hann haldinn fyrir 15. mars. Við því var ekki orðið. Heldur hafi fráfarandi formaður notað tímann til að dylgja um hana og Viðar og reynt að finna á eitthvað á þau með því að panta lögfræðiúttektir.

Persónulegar skoðanir megi ekki lita vinnustaðinn

Þrátt fyrir allt sem á undan er gengið vonast Ólöf til þess að fólk geti unnið saman á faglegan hátt.

Óttastu að það verði einhver átök í næstu viku?

„Ég er mjög bjartsýn og jákvæð fyrir framhaldinu. Ég held að allar særðar tilfinningar fái að róast og fólk geti unnið saman.“

Þú trúir því að fólk geti unnið saman á faglegum forsendum?

„Ég vona það. Það er erfitt fyrir mig að lofa því, ég lofað því að ég get starfað með hverjum sem er. Meira get ég ekki sagt,“ segir Ólöf.

„Við hljótum að geta haft ólíkar skoðanir en unnið saman. Það er leiðinlegt ef það verður einhver núningur hérna á skrifstofunni. Sólveig, verðandi formaður, ber á þá ábyrgð að vera formaður og vera stærri maðurinn á vinnustaðnum. Hún er valdameiri aðilinn í samstarfssambandinu. Það er mikilvægt að hún beri virðingu fyrir sínu starfsfólki og láti sínar persónulegu skoðanir lita þeirra vinnustað. Ábyrgðin er alltaf þar.“

Eiga endilega að vera ólík og ósammála

Sjö nýir einstaklingar koma inn í stjórnina með Sólveigu en sjö sitja áfram frá fyrra ári. Aðspurð hvernig hún sjái fyrir sér að samstarfið innan stjórnar gangi, segist Ólöf vera spennt fyrir komandi tímum.

„Það er alltaf gaman að sjá nýtt fólk koma inn. Eins og ég segi þá höfum við sem erum í stjórninni núna og höldum áfram lært mikið á síðustu fimm mánuðum. Við erum bara spennt að halda áfram vona ég. Skoðanaskipti eru mjög mikilvæg við stjórnarborðið. Við eigum bara endilega að ósammála og ólík, eins og félagsmennirnir okkar eru. Ég held að það sé mikilvægt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka