Þingflokkur Framsóknarflokksins stendur þétt við bakið á Sigurði Inga Jóhannssyni innviðaráðherra, að sögn Ingibjargar Ólafar Isaksen, formanns þingflokksins.
„Þegar aðstæðurnar komu upp settumst við niður og ræddum þetta opinskátt okkar á milli. Niðurstaðan er einfaldlega sú að við stöndum 100 prósent á bak við okkar formann,“ segir Ingibjörg Ólöf.
Sigurður Ingi hefur viðurkennt að hafa látið óviðurkvæmileg ummæli falla um Vigdísi Häsler Sveinsdóttur, framkvæmdastjóra Bændasamtaka Íslands, og beðist afsökunar á þeim. Þingmenn stjórnarandstöðunnar sögðu á Alþingi í gær að ráðherrann hafi brotið lög með ummælunum og kröfðust afsagnar hans. Þingmaður Viðreisnar óskaði eftir því að fá að vita nákvæmlega hvað hann sagði.
Spurð út í meint lögbrot og kröfur um afsögn segir Ingibjörg að Sigurður hafi farið yfir málið í fréttum í gær og sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann hafi beðist einlæglegrar afsökunar. „Svona er staðan og hann er búinn að gangast við þessu og biðjast afsökunar.“
Innt eftir því hvort málið verði áfram rætt innan þingflokksins segir hún: „Þetta er hlutur sem við þurfum að halda áfram með og læra af,“ segir Ingibjörg, sem varð sjálf ekki vitni að ummælum Sigurðar Inga og kveðst því ekki geta tjáð sig um hver þau voru nákvæmlega.
Sigurður Ingi sagðist hafa reynt að ná sambandi við Vigdísi til að biðja hana afsökunar en það hefur ekki enn tekist, að sögn Ingibjargar.
„Eins og kom fram í fréttum í gær en hann búinn að reyna að nálgast hana en það hefur ekki tekist. Við sýnum því skilning. Þetta verður að fá að hafa sinn tíma.“
Spurð hvort málið hafi ekki verið erfitt fyrir Framsóknarflokkinn segir hún svona mál vitaskuld taka á. Öll séum við samt mannleg og gerum einhvern tímann mistök. „Aðalatriðið er að gangast við þeim og biðjast einlæglegrar afsökunar og það hefur verið gert.“
Vigdís Häsler sagðist í samtali við blaðamann ekkert vilja tjá sig um málið þegar eftir því var óskað fyrr í dag.