Telur varhugavert að hagsmunasamtök móti lýðheilsustefnuna

Núna heyra skimanir fyrir leghálskrabbameini undir embætti landlæknis, en framkvæmdin …
Núna heyra skimanir fyrir leghálskrabbameini undir embætti landlæknis, en framkvæmdin er hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Ég er alveg sammála starfshópnum með það að framkvæmdin á yfirfærslu leghálsskimana frá Krabbameinsfélaginu til Heilsugæslunnar hefði mátt fara betur fram síðasta árið. Það skýrist að hluta til vegna aukins álags á Heilsugæsluna í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Einnig virðist starfsmannahald hjá Krabbameinsfélaginu hafa farið úr skorðum þegar störf fólks hjá félaginu voru lögð niður vegna þessara breytinga. Þar hefði mátt gæta meiri nærgætni. Þetta starfsfólk hafði sinnt starfi sínu af alúð um áraraðir,“ segir Jóhann Ágúst Sigurðsson, heilsugæslulæknir og prófessor emeritus. Hann skilaði séráliti í starfshópi sem skipaður var um málið af Læknafélagi Íslands um framkvæmd yfirfærslu leghálsskimana frá frjálsum félagssamtökum til hins opinbera.

Gott að hafa óháð eftirlit

Reynir Tómas Geirsson, fv. yfirlæknir á kvennadeild Landspítalans, prófessor og formaður starfshópsins, greindi frá niðurstöðum nefndarinnar á blaðamannafundi í síðustu viku og lagði þar áherslu á að læra af þessum mistökum og undirbúa betur jafn viðamikil verkefni í framtíðinni. Jóhann Ágúst segir að hann sé fylgjandi yfirfærslunni sem slíkri, þótt gagnrýna megi framkvæmdina á síðasta ári. „Ég er ánægður með að skimanirnar heyri nú undir embætti landlæknis, sem tekur þar með virkan þátt í almenningsfræðslunni og er jafnframt eftirlitsaðili. Framkvæmdin sé svo núna hjá heilsugæslunni. Mikilvægt er að hafa í huga að markmið árangursríkrar skimunar miðast við frjálst val um þátttöku, sem byggist á faglegum upplýsingum um kosti og galla skimana.“

Þarf að skoða heildarmyndina

Jóhann Ágúst segir nefndina hafa verið mjög samstiga með marga þætti og almennt sé enginn ágreiningur um mikilvægi leghálsskimana.

„Nú er mikið verið að ræða um ristilkrabbamein og skimun og ég sé að Ásgeir Theódórs, sérfræðingur í meltingarsjúkdómum, var í viðtali hjá ykkur nýlega þar sem hann talaði um að 50-60 manns væru að deyja úr ristilkrabba árlega á Íslandi. Nú gæti almenningur haldið að skimun kæmi í veg fyrir þessi dauðsföll, en því er ekki að heilsa. Það væri hægt að bjarga hugsanlega þremur og í mesta lagi sex einstaklingum samkvæmt íslenskum rannsóknum af þessum 50-60 sem deyja úr ristilkrabba með því að skima 20 þúsund manns á aldrinum 65-74 ára annað hvert ár í tíu ár. Það verður einnig að hafa í huga að heildardánartíðnin minnkar ekki þrátt fyrir skimunina. Fólk gerir sér ekki grein fyrir umfanginu og í raun hve lítill árangurinn er þegar litið er á heildarmyndina.“

Nánar er rætt við Jóhann í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert