Eyþór Arnalds borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir það mjög jákvætt að stjórn Orkuveitunnar hafi verið falið að fara yfir virkjanamöguleika á starfssvæði OR en tillaga þess efnis kom frá Eyþóri á borgarstjórnarfundi í gær.
Segir í tillögunni að Orkuveitan sé einn stærsti raforkuframleiðandi landsins og búi yfir sjálfbærum grænum orkuauðlindum sem unnt sé að nýta betur.
„Þarna getur Orkuveitan komið með græna orku og staðan er orðin bara sú að það vantar græna raforku á Íslandi og alls staðar þannig að það er mjög ánægjulegt að borgarstjórn beini þessu til orkuveitunnar,“ segir Eyþór í samtali við Morgunblaðið.
Eyþór bendir á að ekkert hafi gerst í virkjanamálum í áratug og að nú sé orkuskortur í landinu. Auk þess þurfi orku fyrir orkuskipti og síðan sé orkuöryggi í Evrópu orðið mikið mál.
„Mér finnst það jákvætt að þessu hafi ekki verið vísað frá og þetta er upphafið að því að þessu mál séu endurskoðuð. Þetta er upphafið að framtíðinni,“ bætir Eyþór við.
Eyþór bendir á að með stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar hafi markmiði um jarðefnaeldsneytislaust Ísland verið flýtt til ársins 2040.
„Þegar Ísland er búið að segja að það ætli að skipta út jarðefnaeldsneyti þá náttúrulega þarf að koma eitthvað í staðinn,“ segir Eyþór.
Eyþór segist viss um að það sé óbeisluð orka á starfssvæði Orkuveitunnar og bendir á að nú sé staðan allt önnur en að hún hafi verið fyrir einhverjum árum og tæknin orðin betri.
„Það er svo mikið að gerast í heiminum að þetta er akkúrat tímapunkturinn til að fara af stað,“ segir Eyþór að lokum.